Innlent

Segir skötuselsákvæðið ekki klæðskerasniðið fyrir sig

Kristján Már Unnarsson skrifar

Sex vikum áður en sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp í gær um nýstárlega úthlutun skötuselskvóta keypti Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, þrjátíu tonna bát til að gera út á skötusel. Formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón A. Kristjánsson, er nú sérlegur ráðgjafi ráðherra um breytingar á kvótakerfinu.

Báturinn var áður hrefnuveiðibáturinn Njörður en nafnið breyttist í Salka GK í byrjun október þegar Grétar Mar fékk hann. Hann segist hafa greitt fimm milljónir fyrir kvótalausan bátinn en sjálfur var Grétar frumkvöðull í skötuselsveiðum við Reykjanes fyrir sex árum.

Grétar segist bæði og hafa keypt bátinn með það í huga að veiða skötusel en fyrst og fremst út af fyrningunni sem boðuð var, bæði fyrir og eftir kosningar.

Á heimasíðu Frjálslynda flokksins er skötuselsákvæðinu lýst sem fyrsta gatinu á kvótakerfinu og tekið fram að Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, hafi átt stóran hlut að máli í framgangi þessa jákvæða skrefs en Guðjón var í ágústmánuði ráðinn í sjávarútvegsráðuneytið til að undirbúa breytingar á fiskveiðilöggjöfinni.

Grétar jánkar því að hann hafi haft vitneskju um það sem var í vændum í gegnum Guðjón en tekur fram að talað hafi verið um þetta strax eftir kosningar. Hann kveðst þekkja Jón Bjarnason sjálfan og hafi ekki þurft að nota Guðjón sem neinn milligöngumann í því. Jón hafi talað um að taka skötusel út úr kvóta, sem og rækju, sem hafi ekki orðið ennþá.

Kílóið af þessum verðmæta fiski selst nú á um 600 krónur. Ákvæði frumvarpsins, sem lagt var fram í gær, um að viðbótarkvóta í skötusel verði úthlutað til nýrra aðila gegn 120 króna gjaldi, segir Grétar að brjóti blað í sögu kvótakerfisins.

Spurður hvort skötuselsákvæðið væri nokkuð klæðskerasniðið fyrir hann, svarar Grétar að hann vildi að svo væri, - en svo sé ekki. Hann kveðst hafa verið án atvinnu og hafi þurft að búa sér til atvinnu sjálfur. Þetta sé það sem hann kunni; að veiða fisk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.