Innlent

Verkalýðsleiðtogi í Tortola-félagi

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sat í stjórn fjárfestingarfélags í Lúxemborg sem var stofnað í gegnum tvö skúffufélög í skattaparadísinni Tortola. Það var aldrei nein starfsemi í félaginu segir Gylfi sem segist ekki hafa vitað að Tortola hafi blandast inn í stofnun félagsins.

Félagið Motivation Investment Holding var stofnað í Lúxemborg árið 2000 og sá Kaupþing í Lúxemborg um að stofna félagið. Það gerði bankinn í gegnum tvö félög sem skráð eru á eyjunni Tortola.

Félögin heita Waverton Group Limited og Starbrook International Limited og komu margoft við sögu þegar Kaupþing stofnaði félög í Lúxemborg. Félögin lögðu svo fram 2,5 milljón íslenskra króna í stofnfé á hinu nýja félagi Motivation Investment Holding.

Endurskoðandi félagsins var Rothley Company Limited sem er skráður til heimilis í Road Town á Tortola. Endurskoðunarfyrirtækið og stofnfélögin hafa sama pósthólf á Bresku Jómfrúareyjunum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, var einn af fimm skráðum stjórnarmönnum Motivation Investment Holding.

Í samtali við fréttastofu segir hann að þegar félagið hafi verið stofnað hafi hann gegnt stöðu framkvæmdastjóra eignarhaldsfélags Alþýðubankans.

Félagið starfaði á innlendum fjárfestingarmarkaði og átti m.a. hluti í Hugviti. Til hafi staðið að bjóða starfsmönnum þess upp á kaupréttarsamninga og hafi sú leið verið valin að stofna félag í Lúxemborg þar sem Hugvit var með starfsmenn víða um Evrópu.

Staðsetningin hafi verið valin til að gæta jafnræðis meðal starfsmanna. Gylfi segist ekki hafa haft vitneskju um að eyjan Tortola hefði blandast inn í stofnun félagsins.

Aldrei hafi verið nein starfsemi í félaginu en það var leyst upp í febrúar á síðasta ári.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×