Körfubolti

Bárður: Hefur verið frábær vetur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis.
Bárður Eyþórsson, þjálfari Fjölnis. Mynd/Valli

Valur og Fjölnir munu í kvöld eigast við í fyrsta leik sínum í rimmunni um hvort liðið fylgir Hamar upp í efstu deild karla í körfubolta.

Bárður Eyþórsson er þjálfari Fjölnis og á von á erfiðri en spennandi leikjum við Valsmenn.

„Valsmenn eru með hörkulið. Þeir eru með sterka og reynslumikla leikmenn í bland við unga og efnilega stráka. Flestir af þeirra leikmönnum eru eldri en okkar leikmenn og því verður þetta erfitt," sagði Bárður.

Fjölnir varð í fjórða sæti 1. deildarinnar en Valur í því öðru. Fjölnir sló út Hauka í undanúrslitunum en Haukar urðu í þriðja sætinu. „Það gæti vel verið að það hafi komið einhverjum á óvart að við unnum Hauka en það kom okkur ekki á óvart. Leikurinn okkar er búinn að vera stigvaxandi í allan vetur."

„Við erum með ungt lið og það tók sinn tíma að leyfa strákunum því að venjast þessari deild. Leikurinn er enn að batna hjá okkur."

Hann óttast ekki að sitt unga lið muni ekki standast pressuna ef Fjölnismann hafa betur í rimmunni gegn Val og komast í efstu deild. „Ef við vinnum Val eigum við erindi í efstu deild - flóknara er það ekki. Það er gríðarlega mikill metnaður í leikmönnum og okkar metnaður liggur í að komast upp."

„Þessi vetur hefur verið frábær og alveg einstaklega skemmtilegur. Þessir strákar eru stórkostlegir - efnilegir körfuboltamenn og einstakar persónur."

„Það hefur verið mikið lagt á þessa ungu stráka enda langflestir enn að spila með yngri flokkunum. Þegar ég þurfti að aflýsa æfingu með meistaraflokki vegna leikja í yngri flokkunum sendi ég ekki nema þrjú SMS á leikmenn sem voru ekki að fara að spila í þessum leikjum."

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.