Innlent

Vigdís Finnbogadóttir kallar eftir nýrri stjórnarskrá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Finnbogadóttir vill fá nýja stjórnarskrá.
Vigdís Finnbogadóttir vill fá nýja stjórnarskrá.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, vill að stjórnlagaþingi verði komið á fót á Íslandi. Þetta segir hún í samtali við Stúdentablaðið sem nýlega kom út.

Aðspurð segir hún að það hefði eflaust ekki orðið verra að fá þjóðstjórn til valda á Íslandi eftir hrunið í fyrrahaust til að sætta þjóðina við orðinn hlut. „Þó veit maður aldrei fyrr en eftir á hvað hefði orðið, ef eitthvað hefði verið gert öðurvísi. En reyndar eftir langa sambúð með Stjórnarskrá Íslands og nokkuð umburðarlyndi í því hjónabandi, finnst mér, og hefur lengi fundist, býsna aðkallandi að við eignumst stjórnlagaþing. Ef menn kynna sér þennan minn ævifylginaut til margra ára hefur hann gamlast þónokkuð umfram sjálfa mig sem af nokkurri viljafestu horfi til framtíðar. Það er kominn tími á nýja stjórnarskrá - ótal ákvæði," segir Vigdís.

Í viðtalinu segir Vigdís að sá hnekkir sem ímynd Íslands hafi beðið vegna bankahrunsins hafi sært sig. Það hafi verið hluti af sínu lífsstarfi að hafa unnið að því að lyfta ásýnd lands og þjóðar. Sitt hlutverk sé þá núna að reyna að lýsa upp á nýtt þessa ímynd þannig að menningin verði Íslendingum styrkur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.