Innlent

Gas gas - fréttamynd ársins

Fréttamynd ársins.
Fréttamynd ársins.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnaði í dag árlega ljósmyndasýningu Blaðaljómyndarafélags Íslands í Gerðarsafni í Kópavogi. Veitt voru verðlaun fyrir bestu fréttaljósmyndir ársins í sjö flokkum.

Fréttamynd ársins var valin ljósmynd sem Pjetur Sigurðsson ljósmyndari Fréttablaðsins tók þegar lögreglan leysti upp mótmæli vörubílstjóra við Suðurlandsveg í apríl eftir að komið hafði til átaka. Hrópið ,,gas, gas" greiptist þar fyrst í vitund þjóðarinnar, en það átti eftir að heyrast oft næstu mánuði.

Mynd úr myndaröð ársins. Ráðherrar á Blaðamannafundi.

Mynd og myndaröð ársins

Viðurkenningu fyrir mynd ársins og myndaröð ársins fékk Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, sem teknar voru hina örlagaríku sólarhinga 29. september til 9. október.

Þá varð ljóst að allir þrír stærstu bankar landsins, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir, glímdu við gríðarlega alvarlegan lausafjárvanda. Gripið var til umdeildra aðgerða af hálfu Seðlabanka, Fjármálaeftirlits og ríkisstjórnar sem miðuðu að því að forða fjármálakerfi landsins frá algeru hruni.

Mynd ársins. Lárus Welding og Davíð Oddsson.

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, og Davíð Oddsson formaður seðlabankastjórnar, á blaðamannafundi í Seðlabankanum 29. október þar sem tilkynnt var að ríkið hefði keypt 75% hlut í bankanum.

Skoplegasta mynd ársins.

Skoplegasta mynd ársins

Auk þess voru veittar viðurkenningar fyrir skoplegustu mynd ársins og þjóðlegustu mynd ársins. Skoplegasta mynd ársins var valin mynd sem Golli, Kjartan Þorbjörnsson, á mMorgunblaðinu tók við setningu prestastefnu 2008 en þá gengu prestar landsins til kirkju í skipulagðri röð og aftastir vígslubiskupar og biskup. Þar fyrir aftan bættist við óvæntur gestur frá fjarlægu stjörnukerfi.

Guðmundur Rúnar Guðmundsson, ljósmyndari á Morgunblaðinu var verðlaunaður fyrir þjóðlegustu mynd ársins. Myndina tók hann þegar rúmlega 30.000 manns söfnuðust saman við Arnarhól til að taka á móti íslenska handboltalandsliðinu og fagna einstæðum árangri þess.

Sýningin stendur yfir frá og með 14. mars til 3 maí í Gerðarsafni í Kópavogi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.