Innlent

Höfum ekkert að gera í ESB að óbreyttri fiskveiðistefnu þess

Adolf Guðmundsson, nýkjörinn formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, er ómyrkur í máli um Evrópusambandið og fiskveiðistefnu þess í viðtali í Fiskifréttum í dag.

„Frá sjónarhóli íslensks sjávarútvegs höfum við ekkert inn í Evrópusambandið að gera á meðan sjávarútvegsstefna þess er óbreytt."

Greint er frá viðtalinu á heimasíðu LÍÚ. Þar kemur fram að Adolf segir umræður um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu mótast af því að menn haldi að „það sé einhver patentlausn að ganga í Evrópusambandið en það er rangt."

Hann segir ennfremur að þetta sé óheppilegur tími til samningaviðræðna „því við erum ekki í neinni stöðu til þess að gera kröfur á sama tíma og við erum á hnjánum að biðja þessar þjóðir um lán."

Formaður LÍÚ hefur í viðtalinu ekki nokkra trú á því að Íslendingum takist að hnika ESB til í afstöðu sambandsins til sjávarútvegs.

„Ekki ómerkari stjórnmálamenn en Margaret Thatcher og Tony Blair reyndu að fá breytingar fyrir breskan sjávarútveg en tókst ekki. Því skyldi okkur takast það frekar?"

Adolf bendir einnig á að í ráð og nefndir innan ESB sé raðað út frá mannfjölda aðildarríkjanna. „Hver verða þá áhrif okkar að mikilvægum málum?" spyr formaðurinn.Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.