Innlent

Vill að forsætisráðherra reki seðlabankastjóra

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi borgarstjóri.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður og fyrrverandi borgarstjóri.

Þær skeytasendingar sem hafa verið á milli Seðlabankans og einstakra ráðherra eru óvenjulegar og óviðeigandi, sagði Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í Markaðnum í morgun.

Stjórnmálamenn deildu í síðustu viku um það hvort sex prósenta stýrivaxtahækkun hafi verið að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í samræmi við samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eða á ábyrgð Íslendinga. Seðlabankinn sendi svo frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem vísað var í samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en samkomulagið er trúnaðarmál.

„Formaður bankastjórnar Seðlabankans er embættismaður, hann heyrir undir forsætisráðherra og á að haga sér sem slíkur," segir Steinunn Valdís. Hún segir að með því að upplýsa um trúnaðarupplýsingar hafi formaður bankastjórnarinnar brugðist trausti.

„Og ég skal bara orða það þannig að ef eitthvað álíka hefði gerst á minni vakt þegar ég var borgarstjóri að þá hugsa ég að ég hefði ég kallað viðkomandi embættismann á teppið og veitt honum áminningu og hugsanlega gripið til einhverra róttækra aðgerða í kjölfarið," sagði Steinunn Valdís. Hún bendir á að Seðlabankinn heyri undir fosætisráðuneytið þannig að það sé á valdi forsætisráðherra að grípa til aðgerða.

Steinunn Valdís segir að formaður bankastjórnar Seðlabankans hafi vakið hneykslan í fjölmiðlum erlendis, til dæmis á alþjóðlegu viðskiptasíðunni TimeWatch, þar sem tilkynning Seðlabanka um Rússalán hafi verið tekið sem dæmi um eitt af 10 mestu klúðrum í kreppunni. Wall Street Journal hafi séð ástæðu til þess að þýða Kastljósviðtalið. Steinunn Valdís segir að hegðan Davíðs sé farin að skaða Ísland á alþjóðavettvangi.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×