Körfubolti

Zdravevski að fá íslenskt ríkisfang

Jovan Zdravevski er að feta í fótspor Brenton Birmingham og er að fa íslenskt ríkisfang
Jovan Zdravevski er að feta í fótspor Brenton Birmingham og er að fa íslenskt ríkisfang

Körfuboltamaðurinn Jovan Zdravevski hjá Stjörnunni er nú við það að fá íslenskan ríkisborgararétt. Zdravevski hefur leikið með Skallagrími og KR en gekk í raðir Stjörnunnar á síðustu leiktíð.

Stjörnumenn hafa fengið til sín tvo leikmenn fyrir átökin á næsta tímabili, þá Justin Shouse sem lék með Snæfelli og Ólaf Sigurðsson frá ÍR.

"Þetta hefur svosem enga sérstaka þýðingu fyrir okkur eins og staðan er núna. Hann er atvinnumaður og er á launum hjá Stjörnunni eftir sem áður. Ætli við getum ekki sagt að við spilum þá á tveimur útlendingum á næsta tímabili. Það væri þá ekki nema 2+3 reglan detti á varðandi útlendinga á næstunni, en ef svo væri myndi þetta hafa aukna þýðingu fyrir okkur," sagði Bragi Magnússon, þjálfari Stjörnunnar í samtali við Vísi.

Stjörnumenn eru nú byrjaðir að æfa létt fyrir næsta vetur en æfingar byrja á fullu í næsta mánuði.

Markmiðin eru skýr hjá Garðbæingum fyrir næsta vetur.

"Markmið okkar í fyrra var að komast í úrslitakeppnina þar sem okkur fannst of hóflegt að ætla okkur bara að halda sæti okkar í úrvalsdeildinni. Það sama verður uppi á teningnum næsta vetur, en þá verður allt annað en að komast í úrslitakeppnina óásættanlegt. Við viljum ekki hljóma hrokafullir, en það er bara hugur í mönnum hérna," sagði Bragi.

Hann segir mynd að koma á leikmannamálin fyrir næsta vetur en segir félagið eiga eftir að verða sér út um miðherja fyrir átökin og vonir standi til um að það verði komið á hreint áður en undirbúningsmótin fari af stað.

"Við höfðum litla sem enga reynslu af því að spila í efstu deild en við lærðum gríðarlega mikið á síðasta vetri. Það á við um bæði mig og leikmenn, stjórn og alla sem komu að því að halda utan um liðið. Stemmingin í Ásgarði var frábær og það er að eiga sér stað ákveðin vakning í körfuboltanum hér í Garðabæ," sagði Bragi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.