Innlent

Tollar og gjöld hamla netverslun og samkeppni

Tollar og gjöld á hluti sem pantaðir eru á netinu hamla netverslun Íslendinga og um leið samkeppni við innlenda verslun, segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Hann segir það hagsmunamál fyrir neytendur að lækka gjöldin.

Sagt var frá ungum manni í fréttum Stöðvar 2 í gær sem hafði pantað sér sjö geisladiska á Amazon og rak í rogastans þegar hann áttaði sig á að diskarnir höfðu nánast tvöfaldast í verði á leið frá Amazon á pósthús Íslandspósts. Eftir að búið var að leggja á toll, virðisaukaskatt og tollmeðferðargjald bættust rúmlega þúsund krónur við hvern einasta disk. Tollmeðferðargjaldið rennur til Íslandspósts.

Fréttastofa hefur fengið mikil viðbrögð við fréttinni og sögur frá fólki sem er ekki sátt við þessa miklu gjaldtöku. Formaður Neytendasamtakanna segir eðlilegt miðað við gildandi reglur að verð á t.d. geisladiskum allt að tvöfaldist á leið á pósthúsið.

Hins vegar sé ljóst að þessi mikla gjaldtaka hamli því að Íslendingar nýti sér vefverslun eins og þeir ella gætu gert. Um leið komi þetta í veg fyrir mikilvæga samkeppni gagnvart innlendum seljendum.

Tollar heyra undir fjármálaráðuneyti og Íslandspóstur undir samgönguráðuneyti. Aðspurður hvort hann vilji að viðskiptaráðherra beiti sér fyrir lækkun gjaldanna til að efla samkeppni við innlenda verslun segir Jóhannes að hann myndi fagna því að viðskiptaráðherra sem ráðherra neytendamála myndi ýta hressilega á í þessu máli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×