Innlent

Björn Ingi og Óskar brutu gegn skattalögum

Björn Ingi Hrafnsson gaf fatastyrk ekki upp til skatts.
Björn Ingi Hrafnsson gaf fatastyrk ekki upp til skatts.

Frambjóðendur Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík árið 2006 hefðu átt að gefa fatastyrk sem þeir fengu upp til skatts sem hlunnindi eða gjafir, að mati lögfræðings. Fréttablaðið hefur það eftir Birni Inga Hrafnssyni borgarfulltrúa að hann hefði ekki séð ástæðu til að gefa styrkinn upp til skatts því að um svo lágar upphæðir hafi verið að ræða.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins kvaðst í gær hafa undir höndum reikninga frá fataverslununum Herragarðinum og Hugo Boss að andvirði um ein milljón króna. Allir hafi þeir verið gefnir út á Fulltrúaráði Framsóknarflokksins í Reykjavík. Flestir þeirra séu merktir upphafsstöfum Björns Inga Hrafnssonar. Óskar Bergsson, annar maður á lista Framsóknarflokksins, sé einnig á meðal þeirra sem hafi kvittað fyrir hluta fatanna, ásamt Rúnari Haukssyni, kosningastjóra flokksins.

Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður hjá lögfræðiskrifstofunni Logos, segir að styrki eins og þennan eigi að gefa upp til skatts sem hlunnindi eða gjafir. Í þessu tilfelli hefðu frambjóðendur sennilegast átt að standa skil á greiðslunum. Hafi þeir sem þáðu styrkina verið skilgreindir sem starfsmenn fulltrúaráðsins þá hafi það verið hlutverk fulltrúaráðsins að standa skil á staðgreiðslu.

Samkvæmt heimildum Vísis eru frambjóðendur á vegum stjórnmálaflokkanna yfirleitt ekki skilgreindir sem starfsmenn flokkanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.