Körfubolti

Pétur Guðmundsson fimmtugur í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pétur Guðmundsson
Pétur Guðmundsson

Pétur Karl Guðmundsson, leikmaður aldarinnar og eini Íslendingurinn sem hefur spilað í NBA-deildinni, er fimmtugur í dag, 30. október.

Pétur var fyrsti Evrópumaðurinn sem spilaði í NBA-deildinni og spilaði 150 NBA-leiki auka 14 leikja í úrslitakeppninni á sínum ferli með Portland Trailblazers (68/0), Los Angeles Lakers (8/12) og San Antonio Spurs (74/2). Pétur var með 4,6 stig, 3,8 fráköst og 1,0 stoðsendingu að meðaltali á 13,7 mínútum í þeim 150 deildarleikjunum sem hann spilaði í NBA.

Besta meðalskorið var Pétur með þegar hann leysti af Kareem Abdul-Jabbar hjá Lakers tímabilið 1985-86 en Pétur var þá með 7,3 stig og 4,8 fráköst að meðaltali á 16,0 mínútum.

Pétur lék í treyju númer 40 hjá Portland, var í treyju 35 hjá San Antonio en hjá Lakers var hann númer 34 en meðal eftirmanna hans í því númeri hjá félaginu var sjálfur Shaquille O'Neal.

Hann lék einnig með Mercer Island miðskólanum og spilaði með University of Washington í bandaríska háskólaboltanum. Pétur var síðan valinn númer 61 af Portland Trail Blazers í nýliðavalinu 1981.

Leikmaður aldarinnar

Pétur í leik með San Antonio Spurs gegn fyrrum félögum sínum í LA Lakers Mynd/kki


Pétur lék alls 82 leiki í úrvalsdeild fyrir Val (7), ÍR (23), Tindastól (39) og Breiðablik (13) en hann skoraði 21,7 stig að meðaltali í þessum 82 leikjum. Pétur átti sín bestu ár stigalega séð með ÍR 1982-83 (28,0 stig í leik) og 1983-84 (26,6).

Pétur vann sinn eina titil á Íslandi þegar hann var bikarmeistari með Val 1981 þar sem að hann skoraði 20 stig í bikarúrslitaleiknum.

Pétur lék 54 A-landsleiki á árunum 1978 til 1992 og lék einnig 24 leiki fyrir yngri landsliðin.

Pétur var valinn leikmaður aldarinnar á Íslandi árið 2001 af 50 manna dómnefnd á vegum Körfuknattleikssambands Íslands.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.