Innlent

Vill hækka lendingargjöld til að fækka einkaþotum

Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur í hyggju að hækka lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli, meðal annars til þess að draga úr lendingum einkaþotna á vellinum. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Það var flokkssystir Kristjáns og formaður samgöngunefndar, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sem innti ráðherra eftir afstöðu hans til flugs og lendinga einkaþotna á Reykjavíkurflugvelli. Benti hún á að lendingum þeirra hefði fjölgað umtalsvert á síðustu misserum með tilheyrandi mengun og hávaða. Þeir sem byggju við flugvallarstæðið hefðu bæði af þessu áhyggjur og ama.

Sagði hún þróunina hafa verið þá að draga úr umferð á flugvellinum og því skyti það skökku við að sjá þessa aukningu í lendingum og flugi einkaþotna. Spurði hún ráðherra hvort hann deildi ekki þeirri framtíðarsýn með henni að þessi umferð ætti fremur heima á Keflavíkurflugvelli.

Samgönguráðherra greindi frá því að hann hefði nýlega fundað með fulltrúum frá Flugstoðum. Þar hefði meðal annars komið fram að hreyfingar í millilandaflugi á Reykjavíkurflugvelli, það er lendingar og brottfarir, hefðu verið 4500 í fyrra og líklega 3600 það sem af væri þessu ári.

Þetta hefði komið til tals vegna þeirra tekna sem flugmálayfirvöld hefðu af þessu flugi. Það hefði komið honum á óvart að tekjurnar væru ekki háar og unnið væri að því að breyta því þannig að tekjurnar myndu aukast. Sagði ráðherra að með því að hækka lendingargjöldin á Reykjavíkurflugvelli mætti leiða líkur að því að lendingum einkaþotna myndi fækka.

Steinunn Valdís þakkaði svarið og benti á að þótt þau flokkssystkinin væru ekki alltaf sammála um um flugvöllinn í Reykjavík þá heyrðist henni þau vera sammála um að þetta flug ætti ekki heima á Reykjavíkurflugvelli. Hún horfði ekki á málið út frá tekjum heldur fremur mengun og ekki síður hávaðamengun.

Kristján sagði að málefni Reykjavíkurflugvallar væru í vinnslu. Hann hefði átt góðan fund um daginn með fulltrúum betri byggðar þar sem fram hefði komið að skortur væri á veðurfarsrannsóknum á Hólmsheiði, sem nefnd hefur verið sem hugsanlegt nýtt flugvallarstæði í Reykjavík. Sagði ráðherra að þær veðurfarsrannsóknir væru nú hafnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×