Viðskipti innlent

60 milljarðar í krónubréfum á gjalddaga

Krónubréf að nafnvirði 60 milljarða kr. falla á gjalddaga í dag að viðbættum vöxtum en dagurinn er stærsti einstaki krónubréfagjalddagi til þessa frá því að útgáfa krónubréfa hófst í ágúst 2005. Útgefandi krónubréfaflokksins sem fellur nú á gjalddaga er KfW Bankengruppe, en bankinn er stærsti útgefandi krónubréfa fram að þessu og hefur gefið út ríflega fimmtung þeirra krónubréfa sem gefin hafa verið út.

Greining Glitnis fjallar um þetta. Þar segir m.a. að krónubréfaútgáfa á 3. ársfjórðungi nemur nú alls 86 milljörðum kr. en bréf að nafnvirði 102 milljarðar kr. hafa gjaldfallið á fjórðungnum að deginum í dag meðtöldum. Ljóst er að þegar hefur verið framlengt í krónubréfastöðu þeirri sem gjaldfellur í dag að einhverju leyti.

Greining Glitnis telur að áhrif vegna gjalddagans nú séu þegar komin fram á gjaldeyrismarkaði og að gengi krónunnar muni því ekki sveiflast mikið í dag af þessum sökum. Fróðlegt verður hins vegar að fylgjast með þróun krónubréfaútgáfu í kjölfar óróa á alþjóðamörkuðum að undanförnu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×