Innlent

Gríðarlegt ofbeldi og vitleysa

Ari Edwald, forstjóri 365.
Ari Edwald, forstjóri 365.
Gríðarlegt ofbeldi og vitleysa eru orðin sem forstjóri 365 miðla notar um þá fyrirætlan ráðamanna að koma fjölmiðlafrumvarpinu og frumvarpinu um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins í gegn fyrir þinglok.

Forstjóri 365 miðla, sem rekur meðal annars Vísi.is, og framkvæmdastjóri Skjás eins voru gestir Ingu Lindar Karlsdóttur og Sölva Tryggvasonar í Íslandi í dag.

"Þetta frumvarp er um 365, eða Dagsbrún ef þú vilt. Það er eiginlega ekki um neitt annað," sagði Ari Edwald, forstjóri 365 miðla.

Ari sagði aðeins tvö fjölmiðlafyrirtæki, Ríkisútvarpið og 365, yfir mörkunum þar sem takmarkanir á eignarhaldi verða virkar. "Og annað af þeim er tekið út úr í frumvarpinu og sett á sérstök undanþáguákvæði, þannig að þá stendur bara eftir eitt fyrirtæki."

"Í mínum huga er það alveg ljóst að hvorugt þessara frumvarpa, sem eru samtvinnuð, stenst EES-samninginn og ég hef enga trú á því að þetta brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar (sem fjölmiðlafrumvarpið felur í sér) fái staðist," sagði Ari og bætti við. "Þannig að mér finnst þetta vera gríðarlegt ofbeldi og vitleysa að troða þessum frumvörpum fram með þessu offorsi sem nú er í gangi."

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Skjás eins, sagði að hann væri ekki sáttur við allt í frumvarpinu en undraðist hörð viðbrögð forstjóra 365 við því. "Ég skil ekki þetta moldviðri í raun. Það var vitað að hverju var gengið þegar var farið í að endursemja þetta frumvarp. Og eins þessi 25 prósenta regla, eða hugmynd að reglu. Hún er komin frá aðaleiganda þessa fyrirtækis, ekki satt? Það var Jón Ásgeir (Jóhannesson) sem stakk upp á þessu, að 25 prósent væri kannski hæfileg tala."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×