Innlent

Lagt á ráðin í tölvupósti

Kristinn Björnsson
Kristinn Björnsson

Forstjórarnir þrír, Kristinn Björnsson, Einar Benediktsson og Geir Magnússon, sem ákærðir hafa verið í 27 liðum fyrir samráð og markaðsskiptingu höfðu mikil samskipti sín á milli á árunum 1993 til 2001 en rannsóknin á samráði olíufélaganna miðast við það tímabil.

Í tölvupóstum milli forstjóranna var lagt á ráðin um skiptingu markaða, ákvarðanir teknar um samráð og jafnvel kvartað undan ágangi á stöðum þar sem samkomulag hafði verið gert um viðskipti. Öll samskiptin og skilaboðin sem vitnað er til eru úr tæplega þúsund blaðsíðna skýrslu Samkeppniseftirlitsins um verðsamráð olíufélaganna.

Kristinn Björnsson

„Ekki hefur þú orðið mikið var við okkur t.d. í Neskaupstað eða hjá stóru fyrirtæki á Akureyri ... Ekki hefur þú þurft að kvarta undan okkar ágangi á Skagaströnd heldur. Ekki voru nefnd verð eða beðið um að gera tilboð af okkar hálfu, eins og þú gerir núna."

- Úr tölvupósti til Einars Benediktssonar eftir að starfsmenn Olís heimsóttu fyrirtækið Þorbjörn-Fiskanes í Grindavík sem var í viðskiptum við Skeljung.

„Það sem vekur furðu hjá okkur er að Olís skuli leita svo sterkt eftir að ná erlendum viðskiptasamningum, sem Skeljungur hefur haft um langan tíma. Ber þá enn og aftur nýrra við í samskiptum félaganna og má segja að fátt eitt standi eftir af þeim gömlu gildum er áður voru í heiðri höfð milli félaganna. Er það miður."

- Úr tölvupósti Kristins til Einar Benediktssonar í september árið 2000 eftir að sænskt fyrirtæki sem hafði lengi verið í viðskiptum við Skeljung greindi forsvarsmönnum Skeljungs frá því að Olís hefði sóst eftir að gerast umboðsaðili fyrir fyrirtækið.

„…lýsti þeirri skoðun sinni að sjálfsagt væri að ræða málin og fara yfir þau, þó svo ljóst væri að eftir sem áður yrði samkeppni milli félaganna um viðskipti. Hins vegar væri óþarfi að keyra samskipti milli félaganna út í þær öfgar, að allir biðu tjón af."

- Úr skýrslu samkeppnisyfirvalda þar sem vitnað er til minnisblaðs Kristins. Samkeppnisyfirvöld töldu Kristin með þessum skilaboðum, sem eru frá því skömmu áður en hann tók við sem forstjóri, hafa gefið mynd af því ástandi sem ríkti á olíumarkaðnum hér á landi um árabil. Í minnisblaðinu kemur Kristinn fram því sjónarmiði að of hörð samkeppni sé óæskileg.

„Fundarefni: Ummæli [...] ofl. um „íslensku olíufélögin" í kjölfar úrskurðar Samkeppnisstofnunar um Sölufélag garðyrkjumanna o.fl."
- Úr tölvupósti til Geirs Magnússonar og Einars Benediktssonar í apríl 2001 eftir að samkeppnisráð úrskurðaði um ólögmætt samráð fyrirtækja á grænmetis- og ávaxtamarkaði.

„Það varð að samkomulagi milli olíufélaganna að Skeljungur hefði áfram viðskipti við Reykjavíkurborg og Landhelgisgæslu og að félagið myndi gera upp framlegð af viðskiptunum við hin félögin."
- Úr fundargerð. Kristinn sagði þetta á fundi niður í höfuðstöðvum Samkeppnisstofnunar í október árið 2002 en þá var tæpt ár síðan að samkeppnisyfirvöld gerðu húsleit hjá olíufélögunum vegna gruns um samráð.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrrverandi starfsmenn Skeljungs hafa veitt, var óformlegt samkomulag um óbreytt fyrirkomulag á Grundartanga, þ.e. áframhaldandi rekstur Olís með skiptingu framlegðar. Það er í fullu samræmi við venjur og hefðir sem skapast hafa í sambærilegum málum."

- Kristinn sendi Geir Magnússyni og Einari Benediktssyni þessi skilaboð í tölvupósti árið 1999. Í því er vísað til útboðs Íslenska járnblendifélagsins en samkeppnisráð telur bréfið gefa skýrt til kynna að olíufélögin hafi haft með sér samráð vegna útboðsins.

„Núverandi aðstæður bæði í sölu til erlendra skipa og flugvéla [eru] algerlega óviðunandi og má helst líkja við útflutningsbætur. Spurning hvort hægt sé að ræða skiptingu aftur [...] þannig að hægt verði að ná betri verðum við endurnýjun samninga..."

- Úr minnisblaði sem samkeppnisyfirvöld komust yfir við rannsókn málsins.
„Mér finnst að þú eigir að ræða þessi mál strategiskt við hin félögin."
- Úr tölvupósti Kristins til framkvæmdastjóra markaðssviðs stórviðskipta hjá Skeljungi í maí 1996. Samkeppnisyfirvöld hafa haldið því fram að viðræður hafi farið fram milli olíufélaganna um að tryggja hærra eldsneytisverð.

„Er nokkur ástæða til að láta þá komast upp með að klípa okkur í rassinn til skiptis með þessum hætti?"

- Úr tölvupósti Kristins til Geirs Magnússonar frá því í desember 1998 þegar forsvarsmenn Þormóðs ramma höfðu samband við olíufélögin til þess að leita bestu kjara.

Geir Magnússon


„Mér finnst að þú ættir að athuga hvort þetta er réttur leikur hjá ykkur. Við munum að sjálfsögðu fara inn á staði hjá ykkur til að jafna leikinn. Boltinn er því hjá þér."

- Úr tölvupósti til Einars Benediktssonar er fréttir bárust af því árið 2000 að Olís ætlaði að setja upp gasolíuafgreiðslu í Bíldudal en Olíufélagið Esso rak þar bensínstöð samkvæmt samkomulagi olíufélaganna um markaðsskiptingu.

Tölvupóstur til forstjóra Skeljungs:

„Ég geri það að tillögu minni að við tökum aðeins fyrir uppgjörsmál á fundinum og fremstu öðru. Óuppgert er: Grundartangi, SVR, Raufarhöfn og Kísiliðjan. Vinsamlegast eyðið þessari orðsendingu þegar þið hafið lesið hana."

- Úr tölvupósti til Kristins Björnssonar sem sendur var eftir fund þeirra í febrúar árið 2000.

„Sameiginleg stöð á Ísafirði byggist á því að það sé ekki um aðrar stöðvar að ræða. Sá sem opnar á móti sameiginlegri stöð verður settur út úr samstarfinu."

- Úr tölvupósti frá árinu 2000 til samstarfsmanns vegna frétta sem bárust til Olíufélagsins um að „háttsettur maður frá Olís, sem ekur um á dökkum Volvo" sé að leita að lóð fyrir ÓB á Ísafirði.

„Þar sem ég næ ekki til þín í síma sendi ég þér þetta þessa leið. Ég hef einhverjar fréttir um að Skeljungur ætli að setja upp sjálfsafgreiðslustöð á Höfn. Ef þeir ætla að gera það með lægra verð er það nýr kafli í verslun með bensín úti á landi. Það er að vísu auðvelt að benda á ÓB í Borgarnesi á móti. Þetta gæti orðið upphafið að lækkuðu bensínverði úti á landi. Óskast rætt á morgun."

- Úr tölvupósti til Kristins Björnssonar frá því í desember 1998 af ótta við að uppsetning nýrrar bensínstöðvar Skeljungs á Höfn myndi leiða til aukinnar samkeppni og lægra verðs á olíu á landsbyggðinni.

Einar Benediktsson

„Málið fer mjög í taugarnar á mér. Hef í því sambandi skrifað niður nokkra punkta sem ég vil bera undir þig. Hef ekki mikla þolinmæði til að fresta lengi að taka umræðu við GM [Geir Magnússon]."

- Úr tölvupósti til samstarfsmanns frá því í febrúar árið 2000. Samkeppnisyfirvöld telja Einar hafa með þessu verið að lýsa óánægju sinni með að Olíufélagið Esso hafi ekki veirð tilbúið til samstarfs vegna útboðs Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga.

„Minni á umræðuna um að ná framlegð upp um ca 0,70 per líter í öllum tegundum, sem „allir" hafa tekið undir. Megum ekki missa þetta fína tækifæri til lagfæringa, sem varla skapast aftur í bráð."

- Úr tölvupósti til samstarfsmanna frá árinu 1997. Samkeppnisyfirvöld telja að olíufélögin hafi lagt mikla áherslu á að hækka framlegðina með samstilltum aðgerðum því að mati stjórnenda olíufélaganna var hún óviðunandi.

„Tek heilshugar undir þetta. Óþolandi glannaskapur, svona á að afhenda yfir borð eða í mestafalli boðsent..."
- Úr tölvupósti til samstarfsmanna. Einar sendi tölvupóstinn til fjármálastjóra Olís og hneykslast yfir því að forsvarsmenn Skeljungs hafi sent fax vegna útboðs Ísals en þar var greint frá verði.

„Bið þig vinsamlegast að taka í taumana, því annars er greinilegt að stutt verður í slit á samvinnu um erlend skip öllum til bölvunar og taps."

- Úr tölvupósti til Geirs Magnússonar sem sendur var sumarið 1999. Tilefni póstsins var olíusala til erlendra skipa en Einar taldi Olífélagið Esso bjóða of lágt verð.

Geir Magnússon


.

Einar Benediktsson


.

Olíufélögin hafa verið dæmd til þess að greiða Reykjavíkurborg og Strætó bs. tæplega 78 milljónir króna vegna verðsamráðs í tengslum við útboð árið 1996. Lögmenn olíufélaganna hafa þrjá mánuði til þess að áfrýja niðurstöðunni en samkvæmt upplýsingum frá lögmönnum félaganna er líklegra en ekki að það verði niðurstaðan.


.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.