Viðskipti innlent

Dæmi eru um laun í evrum

Forsvarsmenn Marels Árni Oddur Þórðarson stjórnarformaður og Hörður Arnarson forstjóri Marels ræða saman í höfuðstöðvum fyrirtækisins.
Forsvarsmenn Marels Árni Oddur Þórðarson stjórnarformaður og Hörður Arnarson forstjóri Marels ræða saman í höfuðstöðvum fyrirtækisins. MYND/GVA

Þekkt eru dæmi um að starfsmenn hér á landi hafi samið um launagreiðslur í evrum. Nýverið upplýsti framkvæmdastjóri Alþýðusambandsins að þar á bæ veltu menn fyrir sér þeim möguleika að fólk tæki laun að hluta út í erlendum gjaldmiðli.

Þá þekkist að stjórnarmenn fyrirtækja sem mest hafa umsvif í útlöndum fái fái greitt fyrir störf sín í þeim gjaldmiðli sem fyrirtækin nota mest.

Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marels, segir að vel hafi verið tekið í umleitan starfsmanna sem farið hafi fram á að semja um launagreiðslur í evrum, en hluti yfirmanna fyrirtækisins hefur kosið að fara þá leið. Svo eru stjórnarmenn algjörlega í evrum, segir hann.

Sömu leið hafa kosið að fara fyrirtækin Bakkavör sem greiðir stjórnarmönnum laun í sterlingspundum og Össur sem greiðir stjórninni laun í Bandaríkjadölum.

Við erum náttúrlega bara með 330 starfsmenn af tveimur þúsundum á Íslandi, en það er rétt að hluti þeirra þiggur laun evrutengt, segir Árni Oddur og bætir við að þarna sé um eðlilega þróun að ræða. Ef langtímatraust er milli starfsmanna og félagsins skapar þetta möguleikann á að menn taki hluta skulda sinna í evrum, svo sem húsnæðislán. Þá segir hann tómt mál að tala um að ætla að fá erlenda stjórnarmenn að félaginu ef semja eigi við þá um laun í íslenskum krónum.

Hjá Actavis fengust þær upplýsingar að starfsmenn fengju almennt laun í mynt landsins þar sem þeir væru staðsettir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×