Innlent

Tillögur fjölmiðlanefndar ekki lög

Stjórnarþingmenn sem Fréttablaðið ræddi við eru sammála um að tillögur fjölmiðlanefndarinnar geti tekið breytingum áður en samið verður frumvarp sem byggist á þeim. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur sagt að nú þegar sé komið í ljós að þær 25 prósenta eignarhaldstakmarkanir sem fjölmiðlanefndin lagði til séu of stífar. Magnús Stefánsson þingmaður Framsóknarflokksins segir skýrsluna góður grunnur fyrir lagsetningu um fjölmiðla. "Hún er innlegg í umræðuna og þegar farið verður að vinna að frumarpinu verða tillögur nefndarinnar hafðar til hliðsjónar," segir Magnús. Sprurður hvort hann sé sammála Samfylkingunni um að tillögur nefndarinnar um eignarhald séu of stífar segir Magnús: "Niðurstöðurnar eru auðvitað bara tillögur sem menn hljóta að taka mið af við lagasmíð. Þau eru hins vegar ekki lög og eftir er að fjalla heilmikið um þær. Það má vel vera að þær taki breytingum í þeirri umræðu. Það er mikið álitamál hve mörkin eigi að vera stíf," segir Magnús. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstöður nefndarinnar hafi verið ákveðin málamiðlun. "Ég hef ekkert skipt um skoðun frá því í fyrra að það eigi að takmarka á einhvern hátt eignarhald markaðsráðandi aðila að fjölmiðlum. Ég held að þeirri umræðu hafi verið slegið á frest. Við töpuðum því máli í fyrra og því er best að láta það liggja í einhvern tíma," segir Einar Oddur. Spurður um tillögur nefndarinnar segir hann: "Mér finnst tillögur nefndarinnar skipta afskaplega litlu máli. Mörkin mega alveg eins vera 35 prósent mín vegna." Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi skoðanir í báðar áttir. "Við erum að melta skýrsluna og velta þessum skilyrðum fyrir okkur. Enginn hefur lýst andstöðu eða stuðningi við þessi sjónarmið. Umræðan er að byrja núna og ekkert útséð með hvernig frumvarpið muni líta út," segir hann.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×