Innlent

Ríkisritskoðun ekki á dagskrá

Hugmynd fjölmiðlanefndar með ákvæði um skilyrði fyrir útvarpsleyfi var ekki að ganga lengra en núverandi útvarpslög gera, segir Karl Axelsson, formaður nefndarinnar. Vera megi að orðalag sé ónákvæmt, en það standi ekki til að koma á ríkisritskoðun. Hróbjartur Jónatansson lögmaður sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann teldi að tillaga fjölmiðlanefndar um að yfirvöld þurfi að samþykkja allar meiriháttar breytingar á dagskrárstefnu myndi brjóta í bága við stjórnarskrá, ef hún yrði að lögum. Aðspurður hver sé hugmyndin með þessu ákvæði segir Karl að þetta sé árétting og endurómun á ákvæði í 6. grein útvarpslaganna. Og hann kveðst geta fullyrt fyrir hönd nefndarinnar að ætlunin hafi ekki verið að gera nokkrar eðlisbreytingar á ákvæðinu. En ef útvarpsstöð er komin með leyfi, hvers vegna þarf hún samþykki yfirvalda til að breyta dagskrárstefnunni? Karl segir ein aðalrökin fyrir því vera þau, eins og þekkist víða erlendis, að ef einhver lítill aðili komi inn á markað og geri það gott þá geti risarnir ekki breytt dagskrárstefnu sinni á einni nóttu til að drepa nýliðann.   Aðspurður hvort það sé nægileg ástæða til þess að hafa þetta ákvæði sem, á blaði að minnsta kosti, orkar mjög tvímælis, ef það einu rökin fyrir þessu séu að lengja tímann sem það tekur fyrir einn fjölmiðil að hella sér út í samkeppni við annan sem gengur vel, segir Karl það vera álitamál. Það sé líka erfitt að leggja fram fullmótaðar tillögur. Karl bendir einnig á að þetta séu tillögur sem eftir sé að ræða. Það sé á endanum stjórnmálamanna að smíða lögin og ákveða hvað eigi þar heima og hvað ekki.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×