Innlent

Samstaða um takmörkun eignarhalds

Búist er við því að fjölmiðlanefnd menntamálaráðherra nái í dag þverpólitískri samstöðu um að leggja til að sett verði lög sem banni einstaklingum og fyrirtækjum að eiga meira en fjórðungs eignarhlut í fjölmiðlafyrirtæki með tiltekna markaðshlutdeild. Er þar átt við beina sem óbeina eignaraðild. Ekki hefur enn verið ákveðið við hve mikla markaðshlutdeild fjölmiðlafyrirtækis eigi að miða, en talið er að hún verði á bilinu 25 til 33 prósent. Verður hlutfallið einnig ákveðið á lokafundi nefndarinnar, sem verður í dag. Lagt er til að lög um takmarkanir á eignarhaldi, ef þau verði sett, muni ekki taka gildi fyrr en að nokkrum árum liðnum. Nefndin hefur lokið við drög að skýrslu þar sem fram koma tillögur um hvernig sporna megi gegn samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla og hvernig bregðast skuli við myndun hinna lóðréttu eignatengsla sem orðið hafa með kaupum fjarskiptafyrirtækja á fjölmiðlafyrirtækjum. Auk þess verða settar fram tillögur um hvernig tryggja megi sjálfstæði ritstjórnar gagnvart eigendum og jafnframt gagnsæi eignarhalds. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verður engin takmörkun á eignarhlut nýrra eða smárra fjölmiðla. Lög um takmörkun á eignarhluti munu ekki öðlast gildi fyrr en fyrirtækið hefur náð tiltekinni hlutdeild á markaði, en verður fyrirtækið þá að bregðast við því með því að breyta samsetningu eignarhalds. Horfið hefur verið frá hugmyndum um að setja bann við því að sami aðili eigi ljósvakamiðil og prentmiðil, líkt og gert var í fjölmiðlalögunum í fyrra.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×