Sport

ÍS vann 300. leik Hafdísar

Stúdínur unnu fimm stiga sigur á Njarðvík, 66-61, í 1. deild kvenna í kvöld en þetta var tímamótaleikur fyrir Hafdísi Helgadóttur sem lék sinn 300. leik í efstu deild í Kennaraháskólanum í kvöld. Með sigrinum á ÍS enn möguleika á 2. sæti deildarinnar. Angel Mason skoraði 14 stig fyrir ÍS, Signý Hermannsdóttir var með 13 stig og 14 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir skoraði 13 stig, gaf 5 stoðsendingar og stal 5 boltum og Þórunn Bjarnadóttir skoraði 12 stig. Hjá Njarðvík var Vera Janjich með 28 stig og 10 fráköst og Jaime Woudstra skoraði 19 stig og tók 16 fráköst. Hafdís Helgadóttir er nýorðin fertug en hún lék sinn fyrsta leik í efstu deild 7. október 1985. Síðan þá hefur hún tekið þátt í öllum tuttugu Íslandsmótunum með ÍS, varð Íslandsmeistari með liðinu 1991 og bikarmeistari 1991 og 2003. Hafdís hefur skorað 2825 stig í þessum 300 leikjum en allir hafa þeir komið fyrir ÍS. Sigurleikurinn gegn Njarðvík var sá 169. sem Hafdís tekur þátt í með Stúdínum en ÍS hefur aðeins unnið 19 af þeim 61 leik, sem Haddý eins og hún er jafnan kölluð, hefur misst af frá því að hún lék sinn fyrsta leik í október 1985. Síðan þá hefur Hafdís samt eignast tvö börn og er meira að segja orðin amma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.