Innlent

Ísaksskóli hækkar laun og gjöld

Tíu kennarar af sextán í Ísaksskóla hafa gert sérsamning um kjör. Kennararnir fá 240 til 250 þúsund krónur í lágmarkslaun. Einstaklingssamningar geta hækkað kjör hvers þeirra. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir samninginn í mörgum tilfellum fela í sér lakari kjör en nýgerður kjarasamningur grunnskólakennara kveði á um. Hann geti því ekki talist kjarasamningur og brjóti í bága við lög. "Ef ég sjálfur færi að kenna í grunnskóla yrðu laun mín ekki lægri en rúmlega 250 þúsund. Margir kennarar á mínum aldri eru á hærri launum en ég væri vegna viðbótarmenntunar og ýmissa þátta. Þarna er því settur upp taxti sem í mjög mörgum tilfellum er undir lágmarkstaxta stéttarfélags og það er ólöglegt," segir Eiríkur. Edda Huld Sigurðardóttir, skólastjóri Ísaksskóla, segist ekki vilja tjá sig um yfirlýsingu Kennarasambandsins um ólögmæti samningsins: "Samninganefndin hafði á öllum stigum málsins fullt samráð við Kennarasambandið." Eiríkur segir hins vegar ekkert samráð hafa verið fyrir hendi. Edda Huld bendir á að 240 til 250 þúsund séu lágmarkstölur. Hver og einn kennari geri einstaklingssamning við skólayfirvöld sem veiti honum hærri laun á grundvelli hæfni: "Það gefur auga leið að geti kennari fengið 260 til 270 þúsund í næsta skóla þá semur hann ekkert við mig um 240 þúsund. Vilji ég halda þeim kennara býð ég honum betri kjör en hann getur fengið í næsta skóla." Ísaksskóli hefur staðið höllum fæti fjárhagslega og stóð meðal annars ekki skil á vörslusköttum í haust eins og fram hefur komið. Edda Huld segir búið að endurfjármagna reksturinn. Foreldrum hafi einnig verið tilkynnt á fundi á miðvikudag að skólagjöld fimm ára barna hækki úr 10.500 í 13.500 á mánuði og skólagjöld skólaskyldra barna úr 13.500 í 16.000 krónur. Ekki liggur fyrir hve mikill launakostnaður skólans verður þar sem enn á eftir að semja um umframhækkun við hvern kennara.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×