Innlent

Safn um Gísla í Uppsölum

Þeir Ómar Ragnarsson og Árni Johnsen ætla að beita sér fyrir því að safn verði gert í Selárdal um Gísla í Uppsölum. Þótt Selárdalur í Arnarfirði þyki með afskekktustu stöðum landsins koma þangað þúsundir ferðamanna á hverju ári og talið að þeim muni fjölga jafn og þétt á næstu árum. Helsta aðdráttaraflið er hin einstöku listaverk og mannvirki sem Samúel Jónsson reisti á efri árum á jörð sinni Brautarholti. Þarna byggði hann sína eigin kirkju, hann reisti listhús við hlið kirkjunnar, og steypti upp fjölda útlistarverka. Stjórnmálaskörungurinn Hannibal Valdimarsson, sem einnig bjó í Selárdal á efri árum, kallaði Samúel listamanninn með barnshjartað. Samtíða þeim var einnig Gísli í Uppsölum, sem Ómar Ragnarsson gerði landsfrægan á jóladag árið 1981 með einhverjum eftirminnlegasta sjónvarpsþætti sem gerður hefur verið hérlendis. Áður hafði Árni Johnsen ritað grein í Morgunblaðið um Gísla. Nærri tveir áratugir eru frá því Gísli lést og Uppsalir fóru í eyði. Íbúðarhúsið stendur enn og fjöldi muna í eigu Gísla er varðveittur. Þeir Árni og Ómar eiga sér þann draum að húsið verði gert að safni þannig að hver sá sem kemur í safnið er jafnframt safnvörður.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.