Í rúman áratug hefur Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, tekið virkan þátt í starfi Retina International (RI) sem eru alþjóðleg regnhlífasamtök tæplega 40 landssamtaka fólks með arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnu (Inherited Retinal Degenerations). Meginmarkmið samtakanna er að styðja við og stuðla að rannsóknum og tilraunum sem miða að því að finna meðferðir við þessum blinduvaldandi sjúkdómum. Genagreining og aðgengi að þeirri þjónustu er einn mikilvægasti hlekkurinn í því að gefa þeim sem hafa þessa sjúkdóma von um aðgang að meðferðartilraunum og meðferðum þegar að þær verða til.