Fótbolti

Eiður Smári átti tvisvar möguleika á að fara til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen á undan Ryan Giggs.
Eiður Smári Guðjohnsen á undan Ryan Giggs. Vísir/Getty
Markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta frá upphafi, Eiður Smári Guðjohnsen, var í viðtali í Íþróttalífinu á RÚV í gær. Eiður Smári fór yfir ferillinn sinn og nefndi meðal annars þá slæmu ákvörðun að fara til Mónakó í Frakklandi þar sem hann náði sér ekki á strik.

„Ég átti bara rosalega erfitt með að aðlagast öðrum hugsunarhætti, öðrum æfingaraðferðum, öðru landi.. Þetta var í fyrsta skiptið sem ég fór einn og fjölskyldan var eftir. Maður hugsar um það á 20 ára ferli að það munu alltaf vera einhverjar rangar ákvarðanir og aðrar góðar, ég er ekkert að gráta mig í svefn yfir því," sagði Eiður Smári í viðtalinu við Eddu Sif Pálsdóttur.

Eiður lék í Englandi fyrir Bolton Wanderers, Chelsea, Tottenham Hotspur, Stoke City og Fulham en það var eitt félag sem hann sér eftir að hafa ekki spilað með.

„Það er kannski eftirsjá að hafa aldrei spilað fyrir Manchester United, eða undir stjórn Alex Ferguson meira en kannski fyrir United sem klúbb," sagði Eiður Smári og það var möguleiki fyrir hann að komast að hjá sigurgsælasta félagi Englands.

„Það voru einhver tvö skipti allavega þar sem það var alveg inni í myndinni," sagði Eiður Smári en hann skorað fjórum sinnum á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni þar á meðal sigurmarkið í fyrsta sigurleik Chelsea undir stjórn Jose Mourinho.

Eiður Smári lék alls 211 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skoraði í þeim 55 mörk. Hann er langmarkahæstur íslenskra leikmanna í deildinni og næstleikjahæstur á eftir Hermanni Hreiðarssyni.

Eiður Smári skoraði bara fleiri mörk á móti tveimur liðum en á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði fimm mörk á móti Newcastle og Fulham en fjögur mörk á móti United, Liverpool og Charlton.

Eiður Smári Guðjohnsen skorar sigurmark á móti Manchester United.Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×