Lífið

Íslenskt drama á Austurlandi

Kvikmyndin Glæpur og samviska verður frumsýnd í Valaskjálf á Egilsstöðum 25. mars. Myndin hefur verið í vinnslu í fjögur ár og var alfarið tekin upp á Austurlandi með áhugaleikurum.

„Þetta er stórt íslenskt drama sem gerist í þessari hrikalegu náttúru sem hér er," segir leikstjórinn Ásgeir Hvítaskáld. „Meira og minna allir sem kunna eitthvað að leika á svæðinu tóku þátt í myndinni og það mæta örugglega um áttatíu manns á frumsýninguna."

Hann fékk í tvígang styrk frá menningarráði Austurlands til að taka upp myndina, auk þess sem fyrirtæki á svæðinu veittu styrki. Aðaltökustaðurinn var Eiðaskóli og var það eigandinn, framleiðandinn Sigurjón Sighvatsson, sem lánaði þeim skólann fyrir tökurnar. Tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson, sem býr fyrir austan, leikur eiganda listagallerís í einu atriði.

„Hann fer alveg á kostum," segir Ásgeir og heldur áfram um myndina: „Þetta er stór og flókin mynd og það eru margar persónur og margar sögur. Myndin fjallar um glæp og þá samvisku sem tengist honum."

Ásgeir bjó í Danmörku í sextán ár og lærði þar kvikmyndagerð. Handrit myndarinnar var þróað á handritaverkstæði þar í landi. „Ég var með þetta í rassvasanum þegar ég kom heim og allt í einu sá ég möguleika á að gera þetta á Austurlandi."

Björn Thoroddsen, Margrét Eir og Svavar Knútur eru á meðal þeirra sem eiga tónlistina í myndinni, sem verður einnig sýnd á Akureyri, í Reykjavík og víðar.-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×