Lífið

Kokkarnir fengu fyrstir veður af stýrivaxtalækkuninni

Þá og nú
Már Guðmundsson fékk hárskera sinn til fimmtán ára, Vagn Boysen, til að raka skeggið af þeim Tómasi Tómassyni og Úlfari Eysteinssyni. Þeir félagar hafa safnað skeggi síðan síðasta sumar og er breytingin gríðarlega mikil eins og myndirnar sýna.
Þá og nú Már Guðmundsson fékk hárskera sinn til fimmtán ára, Vagn Boysen, til að raka skeggið af þeim Tómasi Tómassyni og Úlfari Eysteinssyni. Þeir félagar hafa safnað skeggi síðan síðasta sumar og er breytingin gríðarlega mikil eins og myndirnar sýna.

Matreiðslumennirnir Úlfar Eysteinsson og Tómas Tómasson fengu fyrstir allra veður af hugsanlegri stýrivaxtalækkun. Seðlabankastjóri hringdi í þá á mánudagskvöldið og greindi þeim frá því að þeir yrðu að vera í startholunum. Hárskeri seðlabankastjórans sá síðan um raksturinn.

Tómas Tómasson, oftast kenndur við Búlluna, og Úlfar Eysteinsson á Þremur frökkum, hafa síðan síðasta sumar safnað skeggi til að mótmæla háum stýrivöxtum. Þeir hugðust ekki raka sig fyrr en vextirnir færu niður fyrir tíu prósent. Fréttablaðið hefur síðan þá fylgst grannt með gangi mála hjá þeim og í gær varð loks ljóst að draumur þeirra væri orðinn að veruleika.

„Ég ræddi við þá í gærkvöldi [mánudagskvöld] og sagði þeim frá því að þetta gæti hugsanlega verið yfirvofandi. Þeir komu síðan hingað klukkan tíu og við áttum notalega stund saman,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Fréttablaðið náði tali af honum eftir blaðamannafund þar sem tilkynnt var að stýrivextir hefðu verið lækkaðir niður í 9,5 prósent. Már fékk hárskerann sinn, Vagn Boysen, til að leysa þetta verkefni af hólmi og greiddi sjálfur fyrir.

„Þetta gekk bara vel, ég var bara með góða vél og þetta var ekkert sársaukafullt, þetta hefur tekið svona klukkutíma,“ segir Vagn í samtali við Fréttablaðið en hann hefur klippt seðlabankastjórann undanfarin fimmtán ár.

Vagn segir seðlabankastjóra vera ákaflega góðan kúnna og það fari eftir því hversu langur tími líði á milli hvernig klippingu hann vilji fá.

Már viðurkennir að þeir í Seðlabankanum hafi fylgst með hinum friðsamlegu mótmælum í fjarlægð og haft nokkuð gaman af. „Ekki það að þau hafi haft nein áhrif á ákvarðanir okkar. Hins vegar var því haldið fram af gárungunum að ástæðan fyrir því að stýrivextirnir voru ekki lækkaðir niður fyrir tíu um jólin væri sú að við vildum ekki eyðileggja fyrir þeim jólavertíðina,“ segir Már en eins og Fréttablaðið greindi frá klæddu þeir Úlfar og Tómas sig upp sem jólasveinar og fóru í nokkra af leikskólum borgarinnar og gáfu börnunum bæði kerti og spil. Már bætir því síðan við að þrjóska kokkanna hafi ekki komið þeim á óvart. „Nei, síður en svo. Þeir gáfu út þessa yfirlýsingu og miðað við það sem maður þekkir til þessara manna þá var engin ástæða til að ætla neitt annað en að þeir myndu standa við hana. Og það væri nú gaman ef fleiri í þjóðfélaginu fetuðu í þeirra spor,“ segir Már.

Tvennum sögum fer af því hvað verði síðan um skeggið. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Fréttablaðsins mun Seðlabankinn fá annað skeggið, hannaður verður sérstakur platti og krukka með skegginu í og því verði síðan komið fyrir á áberandi stað innan veggja Seðlabankans.

freyrgigja@frettabladid.is

Úlfar Eysteinsson / Tómas Tómasson Tommi veitingamenn /Rakstur/Lækkun vaxta/ Blaðamannafundur Seðlabankastjóra
asdf


asdfFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.