Innlent

Umhverfisráðuneytið: Ekki verið að banna skógrækt

„Það er ekki rétt að breytingar sem kveðið er á um í drögunum takmarki stórlega eða banni skógrækt hér á landi," segir í tilkynningu sem umhverfisráðuneytið hefur sent frá sér.

Umhverfisráðuneytið kynnir nú á heimasíðu sinni frumvarpsdrög til breytinga á lögum um náttúruvernd.

Forstöðumaður rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Aðalsteinn Sigurgeirsson, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að ætlunin með breytingunum sé að setja gríðarlegar hömlur á athafnafrelsi manna í skógrækt og landgræðslu. Skógræktarmenn geti illa sætt sig við það altæka bann sem sett verði með slíkum lögum á ræktun allra svokallaðra framandi tegunda. Umfjöllun annarra miðla var á sömu slóðum.

Í tilkynningunni frá umhverfisráðuneytinu segir að markmiðið með breytingum á lögunum sé síður en svo að takmarka stórlega eða banna skógrækt hér á landi. „Sú túlkun að allur innflutningur og dreifing framandi plantna verði bannaður á því ekki við nein rök að styðjast," segir þar.

Þá ítrekar upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins að mikilvægt sé að að umfjöllun og umræða um frumvarpsdrögin séu byggð á réttum og málefnalegum upplýsingum. Í framhaldi af fjölmiðlaumfjöllun um drögin í dag og í gær vill ráðuneytið því koma sjónarmiðum á framfæri. Í tilkynningunni segir:

„Því var meðal annars haldið fram að óheimilt verði að gróðursetja öll helstu tré sem nýtt eru til skógræktar, mögulegri atvinnustarfsemi í skógrækt verði fórnað og að frelsi áhugafólks til að græða upp landið verði einnig takmarkað. Þá var fullyrt að öll helstu skógræktartré verði bönnuð. Þetta er rangt. Í drögum að frumvarpinu segir að umhverfisráðherra geti ákveðið að dreifa megi tilteknum framandi lífverum án leyfis og birt verði skrá yfir þessar tegundir. Ætlunin er að helstu skógræktar- og landgræðslutegundir verði á þessum lista. Einnig getur ráðherra ákveðið að vissar lífverur megi flytja til landsins án leyfis og skal hann á sama hátt birta skrá yfir þær. "




Tengdar fréttir

Leggja til strangar hömlur á skógrækt

Strangar takmarkanir verða settar á skógrækt og jafnvel bann, samkvæmt drögum að nýjum náttúruverndarlögum sem umhverfisráðherra hefur kynnt. Skógræktarmenn bregðast hart við og segja öfgasjónarmið ráða för.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×