Innlent

Auðmenn forðuðu milljörðum rétt fyrir hrun

Gunnar Örn Jónsson skrifar

Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson, Karl Wernersson og Magnús Þorsteinsson millifærðu milljarða úr Straumi yfir í erlend skattaskjól á sama tíma og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis.

Sama dag og tilkynnt var að íslenska ríkið myndi eignast 75% hlut í Glitni hófust millifærslur á peningum frá Straumi og yfir á reikninga á fjölmörgum skattaskjólseyjum.

Hátt í eitt hundrað reikningar voru stofnaðir á skattaskjóleyjunum á tveimur vikum eftir þjóðnýtingu Glitnis.

Björgólfsfeðgar, Karl Wernersson og Magnús Þorsteinsson voru umsvifamiklir í þessum fjármagnsflutningum.

Að auki voru fluttir peningar á reikninga í eigu eignarhaldsfélaganna Samson, sem var í eigu Björgólfsfeðga og Milestone, sem var í eigu Karls og Steingríms Wernerssona.

Fleiri einstaklingar og eignarhaldsfélög áttu auk þess hlut að máli.

Millifærslurnar voru allar í evrum og bandaríkjadölum og hljóðaði hver millifærsla upp á hundruðir þúsunda og milljónir í viðkomandi myntum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu nam fjármagnið að minnsta kosti sjötíu milljónum evra en það eru tólf komma fimm milljarðar króna.

Umræddar skattaskjólsparadísir eru meðal annars, Cayman eyjar, Tortola, Bresku jómfrúreyjarnar, Bermúda, Luxembourg og Hong Kong.

Samson Global Holdings, félag í eigu Björgólfsfeðga, átti á þessum tíma ríflega þriðjung í Straumi. Björgólfur Thor var jafnframt stjórnarformaður Straums.

Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson, fóru fram á þriggja milljarða króna afskrift á dögunum hjá Nýja Kaupþingi og Magnús Þorsteinsson fluttist til Rússlands skömmu áður en héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði hann gjaldþrota þann 4. maí síðastliðinn.

Í byrjun þessa mánaðar var gerð húsleit í höfuðstöðvum Sjóvár og Milestone varðandi hugsanlegar ólöglegar fjárfestingar úr bótasjóði Sjóvár. Að auki var húsleit gerð á heimilum stjórnenda allra fyrrverandi stjórnarmanna Sjóvár og var umræddur Karl Wernersson þar á meðal.

Nánari útsýringar um hvernig fjármagn er flutt til svokallaðra skattaskjólseyja og hvernig fela má slóð og uppruna peninga sem þangað eru fluttir má sjá á fréttavefnum Vísir.is.


Tengdar fréttir

Millifærðu milljarða í skattaskjól rétt fyrir hrun

Nokkrir af ríkustu mönnum Íslands millifærðu milljarða af gjaldeyrisreikningum sínum í íslenskum banka yfir á nýstofnaða reikninga í erlendum skattaskjólum á sama tíma og tilkynnt var um þjóðnýtingu Glitnis í lok september á síðasta ári. Um er að ræða einstaklinga sem tengjast bankanum sterkum böndum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.