Innlent

Sagði af sér sem formaður landskjörstjórnar

Gísli Baldur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður.
Gísli Baldur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður.
Gísli Baldur Garðarsson, hæstaréttarlögmaður, sagði nýverið af sér sem formaður landskjörstjórnar en stjórnin sér um framkvæmd kosninga til Alþingis og gefur út kjörbréf til þingmanna.

Í samtali við fréttastofu sagði Gísli formennsku í stjórninni alla jafna hafa verið í höndum fulltrúa sem skipaður sé þeim flokki sem fari með forsætisráðuneytið hverju sinni. Því hafi verið eðlilegt að hann léti af störfum þegar ný ríkisstjórn var mynduð.

Gísli sendi Sturlu Böðvarssyni, þáverandi forseta Alþingis, bréf þess efnis mánudaginn 2. febrúar, daginn eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð formlega.

Landskjörstjórn var kosin á Alþingi sumarið 2007. Auk Gísla voru Hervör Lilja Þorvaldsdóttir, Ástráður Haraldsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Þórður Bogason kjörin í stjórnina.

Bréf Gísla til forseta Alþingis:

„Hr. forseti Alþingis

Sturla Böðvarsson.

Ég undirritaður tilkynni þér hérmeð afsögn mína sem oddviti landskjörstjórnar. Jafnframt hef ég ákveðið að hætta í landskjörstjórn og óska eftir því að varamaður verði kallaður til starfa í minn stað.

Þessi ákvörðun mín er tekin í ljósi þess, að ný ríkisstjórn hefur nú tekið við völdum í landinu. Formennska í landskjörstjórn hefur alla jafna verið í höndum fulltrúa, sem tilnefndur er af þeim þingflokki, sem fer með forsætisráðuneytið hverju sinni. Sú regla er eðlileg, ekki síst nú, þegar ljóst er að ný ríkisstjórn hefur í hyggju að gera umfangsmiklar breytingar á kosningalögum. Aðkoma landskjörstjórnar að undirbúningi að breytingum á kosningalögum hefur þegar verið nokkur og verður án efa enn meiri á þeim stutta tíma sem ríkisstjórnin ætlar sér til þess að koma breytingum í gegn. Ég tel rétt að fulltrúi flokks forsætisráðherra leiði þá vinnu.

Virðingarfyllst,

Gísli Baldur Garðarsson."

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.