Innlent

Ný ríkisstjórn formlega kynnt klukkan 16:00 í dag

Ný ríkisstjórn tekur að öllum líkindum við völdum á Bessastöðum seinnipartinn í dag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar sem fer með stjórnarmyndunarumboðið, gengur á fund Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands klukkan tólf á hádegi. Þar mun hún gera honum grein fyrir að flokkur hennar og Vinstri grænir hafi náð saman um ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn muni verja falli.

Þingmenn minnihlutastjórnarinnar verða 27 en með stuðningi Framsóknarflokksins hefur ríkisstjórnin 35 þingmenn á bakvið sig, sem er fjögurra manna meirihluti á Alþingi.

Jóhanna Sigurðardóttir gengur síðan á fund forseta klukkan eitt, þar sem hann mun væntanlega gefa henni umboð til stjórnarmyndunar að tillögu Ingibjargar Sólrúnar.

Að loknum fundi Jóhönnu og forseta halda stjórnarflokkarnir væntanlegu þingflokksfundi, þar sem kynntar verða tillögur formanna flokkanna um ráðherraefni þeirra. Ekki er reiknað með að þeir fundir verði langir, nema deilur rísi um ráðherraefni formannanna.

Samfylkingin mun svo halda flokksráðsfund þar sem stjórnarsáttmáli, aðgerðaráætlun og ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar verður kynntur.

Framsóknarmenn halda miðstjórnarfund klukkan hálf tvö, þar sem formaður flokksins kynnir aðkomu flokksins að myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Að þessum fundi loknum munu forystumenn ríkisstjórnarinnar kynna málin fyrir fjölmiðlum, sennilega um klukkan fjögur í dag í gyllta sal Hótel Borgar.

Ríkisráðsfundir á Bessastöðum hafa ekki verið tímasettir en reikna má með að fráfarandi ríkisstjórn komi til fundar með forseta klukkan fimm og nýjir ráðherrar klukkan sex, þar sem þeir verða formlega skipaðir í embætti.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.