Erlent

ESB: Áhersla á stjórnarskrá

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, telur það söguleg mistök ef ekki takist að semja um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Um áramótin tóku Þjóðverjar við forystu í sambandinu til næstu sex mánaða og ætla sér að stuðla að því að ný stjórnarskrá verði samþykkt fyrir kosningar til Evrópuþingsins 2009.

Merkel kynnti verkáætlun Þjóðverja á Evrópuþinginu í Strassborg í morgun. Hún sagði það söguleg mistök ef umræðum um stjórnarskrá sambandsins verði drepið á dreif þó svo að þeim dörgum sem fyrir liggi hafi verið hafnað í einhverjum aðildarríkja sambandsins. Mikilvægt væri að komast að samkomulagi um ný stjórnarskrárdrög fyrir kosningar til Evrópuþingsins árið 2009.

Einnig yrði að leggja áherslu á umhverfismál, alþjóðaviðskipti og gerð samstarfssamninga við Rússa. Einnig yrði sambandið að koma að friðarferlinu í Mið-Austurlöndum og leggja sitt lóð á vogarskálarnar. Ekki væri síður mikilvægt að tryggja sambandsríkjum næga orku og þar með öryggi þeirra.

Merkel sagðist ætla að þrýsta á um að Bandaríkjamenn kæmu að gerð samkomulags í loftslagsmálum sem kæmi í stað Kyoto-bókunarinnar þegar hún rennur út 2012. Ekki væri síður mikilvægt að samræma utanríkisstefnu aðildarríkja sambandsins enn frekar. Til þess yrði að skipa utanríkisráðherra ESB.

En þó áherslan sé á stjórnarskrá er alls óvíst að nokkuð samkomulag náist fyrir kosningarnar 2009. Frakkar og Hollendingar hafa hafnað þeim drögum sem lágu fyrir. Umþóttunartími er liðinn sagði Merkel og ákvörðun um næsta skref yrði að taka fyrir upphaf sumars.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×