Fótbolti

Ødegaard sá yngsti til að byrja mótsleik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ødegaard í landsleik með Noregi.
Ødegaard í landsleik með Noregi. vísir/getty
Norska ungstirnið Martin Ødegaard varð í gær yngsti leikmaðurinn í sögunni til að byrja inná í undankeppni Evrópumóts, en þessi 16 ára og 101 daga gamli leikmaður byrjaði inná gegn Króatíu í gær.

Ødegaard hafði áður hlotnast sá titill að verða yngsti leikmaðurinn til að koma inná í undankeppninni þegar hann kom inná í leik Noregs og Búlgaríu í fyrra. Þá var hann 15 ára og 300 daga gamall.

Norðmenn biðu algjört afhroð í þessum leik, en þeir töpuðu 5-1. Þeir lentu 3-0 undir áður en Alexander Tettey minnkaði muninn þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Gordon Schildenfeld og Danijel Pranjic bættu við mörkum áður en yfir lauk.

Ødegaard gekk eins og flestir vita í raðir Real Madrid í janúar, en hann var eftirsóttur af fjölda liða um allan heim. Hann spilar nú með Real Madrid Castilla sem er varalið Real. Hann er einungis fæddur 1998 svo pilturinn á framtíðina fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×