Viðskipti innlent

„Verðum að bera traust til stjórnenda“

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar LV
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar LV Vísir/Ernir
Um 40 prósent hlutabréfa í HB Granda eru í eigu innlendra lífeyrissjóða. Þar af er Lífeyrissjóður verslunarmanna næststærsti eigandi HB Granda en lífeyrissjóðurinn á 13 prósenta hlut í fyrirtækinu. Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar LV, segir sjóðinn vilja vera samfélagslega ábyrgan

„Þarna eru stjórnendur að taka ákvörðun sem þeir hljóta að telja að sé félaginu fyrir bestu og eftir því sem ég kemst næst þá ætti þessi ákvörðun ekki að koma mikið á óvart. Þeir hafa verið að byggja landvinnslu kerfisbundið upp á Granda síðustu tvö ár svo það hefur legið ljóst fyrir að þeir hafa viljað flytja landvinnslu og efla hana í Reykjavík, því miður á kostnað landvinnslu á Akranesi,“ segir Guðrún.

Á Akranesi starfa um 270 starfsmenn innan samstæðu HB Granda, þar af starfa 93 við botnfiskvinnsluna. Staðan er mjög alvarleg en vinnsla fyrirtækisins á Akranesi er með stærstu vinnustöðum á Vesturlandi. Því er mikið í húfi. Málið er talið það alvarlegt að  bæjarstjórn og bæjarstjóri Akraness funduðu strax í gærkveldi með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og Vilhjálmi Birgissyni, formanni Verkalýðsfélags Akraness, í ráðhúsi sveitarfélagsins, til að fara yfir stöðu mála.

„Við verðum að bera traust til stjórnenda fyrirtækja sem við fjárfestum í. Ef það traust þrýtur þá munum við sýna það með fótunum og munum gera það ef fyrirtæki fara í aðra átt en við viljum sjá,“ bætir Guðrún við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×