Enski boltinn

Zlatan segist vera ljón: Ég er af gamla skólanum þar sem menn vinna fyrir sínu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan fagnar á Wembley.
Zlatan fagnar á Wembley. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic var hetja Manchester United á sunnudaginn þegar hann skoraði tvö mörk og tryggði liðinu sigur á Southampton í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley.

Þessi 35 ára gamli Svíi er nú búinn að skora 26 mörk fyrir Manchester United á tímabilinu en það sem vakti jafnvel enn frekari athygli en frammistaða hans inn á vellinum á sunnudaginn var frammistaða hans í viðtali við Sky Sports eftir leik.

Sjá einnig:Stuðningsmenn Man United eiga strákunum hans Zlatans mikið að þakka

Þar talaði Zlatan hreint út um gagnrýnendur sína og sagði mörkin 26 ekki koma honum á óvart eða vera framar vonum. „Nei, ég spáði þessu. Allt sem ég sá fyrir að myndi gerast er búið að gerast. Málið er að hinir sáu þetta bara ekki,“ sagði hann meðal annars í frábæru viðtali. Brot úr því má finna hér.

Sænski framherjinn hélt svo áfram að fara á kostum þegar hann ræddi við blaðamenn á leiðinni út í rútu þar sem hann hrósaði sjálfum sér fyrir framlagið á leiktíðinni.

„Það sem ég kem með er allur pakkinn. Ég kem með reynslu mína fá öðrum félögum og reynslu frá því sem ég hef afrekað. Ég kem líka með karakterinn sem ég er,“ sagði Ibrahimovic, en Goal.com greinir frá.

„Ég er dýr. Mér líður eins og ljóni. Ljónið fæðist sem ljón sem þýðir að ég er ljón!“

„Ég er af gamla skólanum þar sem þeir sem leggja mikið á sig uppskera fyrir vinnu sína. Það er ekki eins og nýi skólinn þar sem það er auðvelt að fá allt sem þú girnist,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.


Tengdar fréttir

Zlatan færði Man Utd bikar

Þrátt fyrir að hafa bara spilað með Manchester United í sjö mánuði er Zlatan Ibrahimovic kominn í guðatölu á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×