Enski boltinn

Zlatan búinn að ákveða sig | United það eina sem kemur til greina á Englandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manchester United næsti áfangastaður Zlatans?
Manchester United næsti áfangastaður Zlatans? vísir/getty
Sænski fótboltasnillingurinn Zlatan Ibrahimovic er búinn að ákveða hvert hann fer næst en Zlatan yfirgaf franska stórliðið Paris Saint-Germain fyrr í mánuðinum eftir að verða þar meistari í fjórða sinn á fjórum árum.

Heimildir Sky Sports herma að fari Zlatan í ensku úrvalsdeildina sé Manchester United eina félagið sem kemur til greina hjá honum. Hann staðfesti í dag að hann er með tilboð frá Englandi og Ítalíu auk liða utan Evrópu.

Sky Sports greinir frá því að Zlatan sé með risatilboð frá Kína en launapakkinn þar er svo rosalegur að Manchester United með alla sína seðla er ekki tilbúið að slást við kínverska liðið. Sagt er að þetta ónefnda kínverska félag hafi gert Zlatan tilboð upp á tíu milljarða króna.

„Ég veit hvað ég vill. Það er búið að skrifa framtíðina. Ég ákvað mig fyrir löngu,“ sagði Zlatan á blaðamannafundi í Svíþjóð í dag þar sem hann er við æfingar hjá sænska landsliðinu.

„Ég er með tilboð frá Englandi, Ítalíu og öðrum löndum meðal annars utan Evrópu. Það er ekkert að fara að gerast núna. Núna snýst allt um Evrópumótið,“ sagði Zlatan sem talaði vel um Manchester United.

„Mér finnst frábært hjá Manchester United að fá Mourinho. Ég tel að hann sé maðurinn sem getur komið liðinu aftur á toppinn. Ef þú vilt vinna þá færðu Mourinho,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×