Fótbolti

Zlatan: Það mun koma mikið á óvart hvar ég spila næst

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Zlatan er búinn að vinna þrjá Frakklandsmeistaratitla með PSG.
Zlatan er búinn að vinna þrjá Frakklandsmeistaratitla með PSG. vísir/getty
Zlatan Ibrahimovic, framherji Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain, segist ánægður hjá félaginu en ýjaði að því í viðtali í nótt að hann gæti verið á förum.

Zlatan skoraði eitt mark í 2-0 sigri PSG gegn Manchester United, en með sigrinum vann Parísarliðið Bandaríkjahluta ICC-æfingamótsins.

Sænski framherjinn á eitt ár eftir af samningi sínum við PSG en hefur ekki sýnt mikinn vilja til að skrifa undir nýjan samning.

Zlatan, sem gekk í raðir PSG frá AC Milan, hefur verið orðaður við lið í ensku úrvalsdeildinni á borð við Manchester United og Manchester City. Þá hefur hann verið orðaður við nýja MLS-liðið sem David Beckham er að stofna í Miami.

„Hvert fer ég næst? Það mun koma fólki á óvart. Það mun koma öllum mjög mikið á óvart,“ sagði þessi 33 ára gamli leikmaður í viðtali við eftir sigurinn á United í nótt.

„Ég á eitt ár eftir af samningnum við PSG. Hér líður mér vel og ég er mjög ánægður. Liðið er að verða betra og við getum afrekað stærri hluti en við höfum gert,“ sagði Zlatan Ibrahimovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×