Fótbolti

Zidane vildi fá Casillas aftur til Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zinedine Zidane og Iker Casillas.
Zinedine Zidane og Iker Casillas. Vísir/Getty
Spænskir miðlar hafa slegið því upp í dag að Real Madrid hafi ákveðið að reka Rafael Benitez og að Zinedine Zidane taki við liðinu. Florentino Pérez heldur blaðamannafund klukkan 18.30 þar sem hann mun væntanlega staðfesta þær fréttir.

Spænski miðillinn Según la Cadena, hefur ennfremur heimildir fyrir því að Zinedine Zidane sé byrjaður í nýja starfinu og að hann hafi þegar boðið spænska landsliðsmarkverðinum Iker Casillas að snúa aftur til Real Madrid. AS sagði frá fréttinni.

Iker Casillas spilaði með Real Madrid frá 1999 til 2015 en yfirgaf félagið síðasta sumar og gekk til liðs við portúgalska liðið Porto. Endalok Casillas hjá félaginu voru ekki glæsileg en hann er engu að síður goðsögn hjá félaginu.

Það voru margir stuðningsmenn Real Madrid mjög ósáttir við hvernig ferill Iker Casillas þróaðist eftir að allt fór í bál og brand á milli hans og Jose Mourinho.

Zidane og Casillas spiluðu saman hjá Real Madrid og þekkjast mjög vel.Zidane vildi fá Casillas aftur í janúarglugganum en spænski markvörðurinn segist vera búinn að loka hringnum og að hann sé ekki tilbúinn að koma aftur til Real Madrid.

Casillas er enn landsliðsmarkvörður Spánverja og enginn landsliðsmarkvörður hefur haldið markinu oftar hreinu eða spilað fleiri sigurleiki með landsliðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×