Enski boltinn

Zidane: Með samanklipna rassa í El Clasico

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zinedine Zidane á blaðamannafundinum í dag.
Zinedine Zidane á blaðamannafundinum í dag. Vísir/Getty
Einn stærsti knattspyrnuleikur ársins fer fram á morgun þegar Barcelona tekur á móti Real Madrid í El Clasico, eins og leikur liðanna í spænsku 1. deildinni er ávallt nefndur.

Real Madrid er á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar með 33 stig. Liðið er með sex stiga forystu á næstu lið - Barcelona og Sevilla. Barcelona hefur mátt sætta sig við jafntefli í síðustu tveimur leikjum sínum.

Það er því ljóst að sigur Madrídinga myndi gera Börsungum mikinn óleik á morgun þó svo að tímabilið sé ekki enn hálfnað.

„Hvorugur aðilinn er sigurstranglegri í þessum leik,“ sagði Zidane á blaðamannafundi í dag. „Í fyrra fórum við þangað með samanklipna rassa - afsakið orðbragðið - og nú þurfum við að gera það aftur,“ bætti hann við en Real Madrid vann 2-1 sigur á Nou Camp í deildarleik liðanna á síðasta tímabili.

„Ég vil bara að við verðum jafn vel undirbúnir og við vorum fyrir leikinn á síðasta tímabili en að við spilum eins og við höfum gert að undanförnu.“

Barcelona er ríkjandi Spánarmeistari og Zidane segir að það verði að bera virðingu fyrir því.

„Við erum að spila við meistarana og meistararnir eru alltaf góðir í stóru leikjunum.“

Viðureign Barcelona og Real Madrid hefst klukkan 15.15 á morgun, laugardag, og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun hefst skömmu fyrir leik í  myndveri Stöðvar 2 Sports.


Tengdar fréttir

Gleðifréttir fyrir Barcelona-liðið

Andres Iniesta, fyrirliði Barcelona, er búinn að ná sér af meiðslunum og getur spilað á móti Real Madrid í El Clasico á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×