Erlent

Ýtti á Sáda til að herja frekar á ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Obama og Salman konungur.
Obama og Salman konungur. Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fundaði í dag með Salman, konungi Sádi-Arabíu, en Sádar eru bandamenn Bandaríkjanna til langs tíma. Samband ríkjanna er þó stirt vegna deilna um kjarnorkusamkomulag Íran og átaka í Sýrlandi og Jemen.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa verið ósátt við hvað persaflóaríkin hafa hingað til gert í baráttunni gegn ISIS. Þá bæði þegar kemur að hernaði og fjárhagsaðstoð við Írak.

Obama fór fram á að Sádar gerðu meira í baráttunni við Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi og hjálpuðu til við uppbyggingu í Írak. Þá gerði hann konungnum ljóst að hann teldi það best fyrir Mið-Austurlönd að samband Sádi-Arabíu og Íran yrði betra. Þjóðirnar tvær hafa eldað grátt silfur saman um árabil.

Flestir íbúar Sádi-Arabíu eru súnnítar og íbúar Íran eru sjítar.

Samhliða fundi forsetans og kóngsins fundaði Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, með varnarmálaráðherrum fleiri Persaflóaríkja. Carter ræddi einnig um að þau ríki myndu leggja meira til baráttunnar og uppbyggingar í Írak, en ekki var komist að neinu samkomulagi á fundi ráðherranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×