Innlent

Ýtt á eftir persónulegri þjónustu við fatlaða

Heimir Már Pétursson skrifar
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hvetur til þess að lög verði sett um persónulega þjónustu við fatlaða. Ríkisstjórnin framlengdi tilraunaverkefni í stað þess að setja lög.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, hvetur til þess að lög verði sett um persónulega þjónustu við fatlaða. Ríkisstjórnin framlengdi tilraunaverkefni í stað þess að setja lög. vísir/anton brink
Þingmaður Bjartrar framtíðar gagnrýnir að ekkert bóli á frumvarpi frá ríkisstjórninni um notendastýrða persónulegra aðstoð við fatlaða. Þetta sé þjónusta sem bæti mjög lífsgæði fatlaðra en þigmaðurinn hefur umræðu um þetta mál á Alþingi í dag.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er upphafsmaður sérstakrar umræðu á Alþingi í dag þar sem Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra verður til svara, um notendastýrða persónulega þjónustu við fatlaða. En undanfarin rúm tvö ár hefur staðið yfir tilraunaverkefni með þessa þjónustu.

Í stað þess að leggja fram frumvarp um framtíðarskipan þessarar þjónustu fyrir áramót ákvað ríkisstjórnin hins vegar að framlengja tilraunaverkefnið til tveggja ára, eða út kjörtímabil hennar.

„Og ég er í raun að spyrja ráðherrann hver hennar afstaða er til þessarar hugmyndafræði um sjálfstætt líf og þessarar notendastýrðu persónulegu aðstoðar. Það er þannig að við á þinginu erum ekki alveg að standa okkur,“ segir Björt.

En eins og áður sagði stóð til að frumvarp yrði lagt fram um þessa þjónustu fyrir áramót. Þess vegna telji Björt framtíð nauðsynlegt að fá svör frá félagsmálaráðherra um hvers vegna þetta hafi dregist og hvernig hún sjái framtíðina fyrir sér í þessum efnum. Ríkið setji fram kröfurnar en sveitarfélögin standi undir kostnaðinum og veiti þjónustuna.

„Þetta kostar auðvitað eitthvað. Startkostnaðurinn er einhver.  En reyndar sýna rannsóknir að til langs tíma litið er þessi þjónusta ódýrari ef eitthvað er en önnur hefðbundin þjónusta sem við eigum að venjast,“ segir Björt.

Því þurfi að ræða við sveitarfélögin um fjármögnunina. Tilraunaverkefnið nær ekki til allra fatlaðra. Björt Ólafsdóttir segir þörfina mikla en þessi þjónusta tryggi að fatlaðir ráði sjálfir hvernig þjónustu við þá er háttað.

„Þetta er öðruvísi en við höfum átt að venjast um að það sé félagsleg aðstoð á einhverjum ákveðnum tímum. Fólk komist í sturtu milli klukkan níu og tíu á morgnana eða fyrr ákveðna daga. Það er auðvitað ekki mikið val og ekki neitt val sem felst í því. Þannig að þetta færir notendunum miklu meira val og miklu meira sjálfstæði. Það er mjög mikilvægt auðvitað í lífi allra og við eigum að stuðla að því að allir fái þau sjálfsögðu mannréttindi,“ segir Björt Ólafsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×