Enski boltinn

Yorke: Þeldökkir þjálfarar fá ekki atvinnuviðtöl

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dwight Yorke, fyrrum sóknarmaður Manchester United og Aston Villa, segir að það þeldökkir þjálfarar eigi erfitt með að fá starf við hæfi í ensku knattspyrnunni.

Yorke starfaði sem aðstoðarþjálfari, bæði hjá landsliði Trínídad og Tóbagó og Sunderland um skamman tíma í lok síðasta áratugar en hefur síðustu árin starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi.

„Ég er að vonast til þess að ég fái tækifæri,“ sagði Yorke í viðtali við beIn Sports.

„Ég hef náð í mínar þjálfaragráður en mér hefur þó fundist mjög erfitt að finna starf - meira að segja að fá viðtal. Mér þykir þetta afar erfitt eins og er,“ sagði hann enn fremur.

Yorke viðurkennir að reynsluleysi hans hái honum en segir að það sé ekki eina ástæðan fyrir því að hann fær ekki tækifæri.

Þeldökkir þjálfarar virðast eiga erfitt uppdráttar en enginn slíkur er nú knattspyrnustjóri hjá liði í ensku úrvalsdeildinni og aðeins tveir í B-deildinni - þeir Jimmy Floyd Hasselbaink og Chris Hughton.

Yorke telur að kynþáttafordómar eigi einhvern hlut að máli.

„Ég held að þetta sé blanda af báðu. Þeldökkir leikmenn sem vilja komast í þjálfun upplifa allir það sama og labba allir á vegg.“

Aston Villa var á dögunum í þjálfaraleit en Yorke var ekki í myndinni fyrir það starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×