Erlent

Yfirvöld í Tyrklandi hafa bannað viðburði hinsegin fólks

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Yfirvöld í Tyrklandi banna viðburði hinsegin fólks.
Yfirvöld í Tyrklandi banna viðburði hinsegin fólks. Vísir/afp
Tyrknesk yfirvöld tilkynntu í kvöld um þvert bann við öllum hinsegin viðburðum í borginni Ankara um ótilgreindan tíma eða þar til annað verður ákveðið. Yfirvöld í Tyrklandi segja að gripið hafi verið til þessa ráðs til þess að „viðhalda allsherjarreglu“. Ráðist var í stjórnvaldsaðgerðirnar í óþökk hinsegin samfélagsins. Þetta kemur fram á vef AFP.

Ákvörðunin er tekin í kjölfar banns sem lagt var á hinsegin kvikmyndahátíð sem til stóð að halda í höfuðborg Tyrklands síðasta fimmtudag. Bannið var lagt á grundvelli þess að hátíðin gæti kynt undir andúð og hatur auk þess sem stjórnvöld töldu að hryðjuverkaógn gæti fylgt hátíðinni.

Frá og með 18. nóvember hafa yfirvöld í Tyrklandi bannað kvikmyndir, leikhúsviðburði, pallborðsumræður, ráðstefnur og sýningar sem lúta að málefnum LGBTI-samfélagsins (regnhlífarhugtak yfir samkynhneigða, tvíkynhneigða, transfólk og intersex fólk).



Í yfirlýsingu frá stjórnvöldum segir að viðburðirnir séu líklegir til þess að „kalla fram viðbrögð hjá ákveðnum samfélagshópi“ og því sé gripið til bannsins.

Bannið er lagt á í óþökk skipuleggjenda hinsegin kvikmyndahátíðarinnar. Aðstandendur hennar hefðu frekar þegið aukna vernd af hálfu ríkisins. Bannið sé brot á stjórnarskrárvörðum rétti hinsegin fólks.

Hinsegin aðgerðasinnar í Tyrklandi óttast að með banninu sé vegið gróflega að tjáningarfrelsi þeirra. Tveir hópar aðgerðasinna, „Kaos GL“ og „Pink Life“ hafa þegar fordæmt bannið og fulltrúar þeirra segja að þessar stjórnvaldsaðgerðir sé ólöglegar, óréttlátar og geðþóttalegar. Bannið eigi ekki heima í lýðræðislegu samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×