Erlent

Yfirvöld Háskóla í Lundúnum viðurkenna að þau skoði tölvupóst nemenda

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
King's College er leiðandi háskóli á sviði læknavísinda.
King's College er leiðandi háskóli á sviði læknavísinda.
Virtur háskóli í Lundúnum hefur viðurkennt að skólayfirvöld skoði tölvupósta bæði nemenda og starfsfólks skólans. Independent greinir frá.

Háskólinn sem um ræðir er King‘s College London og er einn níu skóla sem tilheyra Háskólanum í Lundúnum. King‘s College London er í 63. sæti í akademískri röðun háskóla.

Athugun skólans á tölvupósti nema og kennara er liður í aðgerðum yfirvalda til þess að sporna gegn uppgangi öfgahópa. Aðgerðirnar, sem á ensku kallast Prevent, er hluti af stærri áætlun gegn hryðjuverkum sem komið var á fót árið 2003.  

Á innskráningarsíðu tölvupóstkerfis skólans eru notendur varaðir við því að möguleiki sé á að fylgst sé með tölvupósti þeirra eða þeir vistaðir.

Stúdentaráð skólans hefur gagnrýnt aðgerðir yfirvalda og telur að um trúnaðarbrot sé að ræða. „Nemar sem hafa ekki framið glæpi eru meðhöndlaðir líkt og um grunaða glæpamenn væri að ræða,“ sagði í yfirlýsingu frá ráðinu. 

Landsamtök stúdenta í Bretlandi hafa einnig fordæmt aðgerðirnar. Forseti samtakanna fullyrti að þær kyntu undir hræðslu og fordóma í garð múslima. „Þetta er enn eitt dæmið um hvernig Prevent-aðgerðunum tekst að snúa menntastofnunum þessa lands gegn nemendum þeirra.“

Að sögn yfirvalda eru aðgerðirnar ekki óeðlilegar og gáfu þau í skyn að samskonar framferði tíðkaðist jafnframt innan veggja fleiri stofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×