Erlent

Yfirvöld á Ítalíu hóta að loka fyrir hafnir og stöðva flæði flóttamanna

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Þúsundir flóttafólks reyna að komast yfir til Ítalíu, frá Afríku, í hverri viku.
Þúsundir flóttafólks reyna að komast yfir til Ítalíu, frá Afríku, í hverri viku. Vísir/Getty
Ítölsk yfirvöld hafa hótað að þau muni stoppa skip frá öðrum löndum sem flytja flóttamenn yfir hafið og inn í landið.  Ítalska strandgæslan sér um að bjarga fólki af bátunum og eru bátarnir oft prýddir fánum Evrópulanda á borð við Þýskalands og Möltu. BBC greinir frá.

Búið er að ræða hvort að banna eigi öllum skipum sem bera erlenda fána, aðgengi í ítalskar hafnir. Því hefur verið velt upp hvort að svoleiðis aðgerð væri yfir höfuð lögleg. Samkvæmt alþjóðlegum haföryggisreglum ber skipum sem verða vitni að sjóslysi eða öðrum erfiðleikum á sjó að aðstoða sama hverjar aðstæðurnar eru. Landið sem er næst slysinu ber síðan ábyrgð á að taka við fórnarlömbunum.

Hótunin kemur í kjölfarið á yfirlýsingu Maurizio Massari, fulltrúa Ítalíu á Evrópuþinginu, um að taka yrði ástandið alvarlega þar sem erfiðara væri að bregðast við ástandinu og viðhalda öryggi. Forsætisráðherra Ítalíu, Paolo Gentiloni, hefur einnig sakað aðrar Evrópuþjóðir um að hunsa ástandið.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort að hótun Ítala sé einungis til að vekja athygli annarra þjóða á versnandi ástandi frekar en að raunverulegur vilji búi að baki. Þetta sé því yfirlýsing af þeirra hálfu um að ástandið sé ekki einungis á ábyrgð þeirra heldur allra.

Talið er að um það bil 10 þúsund manns, til að mynda frá Sýrlandi, Egyptalandi og Bangladess,  hafi á fjórum dögum lagt í þetta háskalega ferðalag yfir hafið frá Líbíu í Afríku í von um betra líf. Fleiri en 70 þúsund manns hafa, það sem af er ári, flúið til Ítalíu. Fjöldinn hefur hækkað um 14 prósent frá því á sama tíma í fyrra. Yfir 500 þúsund flóttamenn hafa komið inn í landið frá árinu 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×