Formúla 1

Yfirmaður Mercedes liðsins óttast bilun í einvíginu í Abú Dabí

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Toto Wolff segir sína verstu martröð vera bilanir í Abú Dabí.
Toto Wolff segir sína verstu martröð vera bilanir í Abú Dabí. Vísir/Getty
Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes liðsins í Formúlu 1 hefur sagt að hann óttist að bilun skemmi spennandi einvígi, Lewis Hamilton og Nico Rosberg um heimsmeistaratitil ökumanna.

Hamilton hélt von sinni um titilinn á lífi með því að vinna í fyrsta sinn keppnina í Brasilíu. Hann minnkaði þar með forskot Rosberg niður í 12 stig.

Rosberg dugar að lenda í þriðja sæti í Abú Dabí jafnvel þótt Hamilton komi fyrstur í mark.

Wolff óttast að tæknilegt vandamál geti spillt einvíginu. Hamilton hefur fengið að finna fyrir þeim á tímabilinu, kannski ögn meira en Rosberg. Rosberg þekkir þó af eigin raunum hvernig er að glíma við slíkt. Árið 2014 bilaði rafallinn í bíl hans í Abú Dabí.

„Við verðum bara að gefa þeim tvo bíla sem virka svo þeir geti glímt á brautinni,“ sagði Toto Wolff.

„Mín stærsta martröð er að eitthvað bili hjá öðrum hvorum þeirra, en svona er þetta bara,“ bætti Wolff við.

Lokakeppni tímabilsins fer fram um komandi helgi. Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 12:50 á laugardag á Stöð 2 Sport 3. Bein útsending frá keppninni hefst svo klukkan 12:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×