Innlent

Yfirlýsing frá Eyjamönnum: Ætla áfram að mæta bæði þörfum drengja og stúlkna

Bjarki Ármannsson skrifar
Íþróttafélagið ÍBV og skipuleggjendur Orkumótsins í fótbolta hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls tíu ára stúlku sem fékk ekki að keppa í svokölluðu landsliði mótsins.
Íþróttafélagið ÍBV og skipuleggjendur Orkumótsins í fótbolta hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls tíu ára stúlku sem fékk ekki að keppa í svokölluðu landsliði mótsins. Mynd/Af Facebook-síðu Orkumótsins
Íþróttafélagið ÍBV og skipuleggjendur Orkumótsins í fótbolta hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls tíu ára stúlku sem fékk ekki að keppa í svokölluðu landsliði mótsins. Stúlkan var valinn í landsleikinn sem fulltrúi Gróttu á Seltjarnarnesi en hún hefur æft og leikið með 6. flokki drengja hjá félaginu.

Stúlkur hafa fengið að keppa á mótinu en fulltrúi Gróttu fékk ekki að vera með í landsleiknum á þeim forsendum að Orkumótið væri drengjamót. Sú ákvörðun hefur víða verið gagnrýnd.

Í tilkynningunni segir að stúlkum hafi verið leyfð þátttaka í liðum frá litlum félögum á landsbyggðinni undanfarin ár, svo að sem flestir krakkar fái að spila á stórmóti. Þar er bent á að sambærilegt mót fyrir stúlkur var haldið í Vestmannaeyjum fyrir um tveimur vikum, þar sem einnig fór fram landsleikur.

Sjá einnig: „Við erum með annað mót fyrir stelpur“

„Þessi iðkandi mun vonandi fá tækifæri til að spila slíkan leik þegar og ef hún mætir á TM-mótið í Eyjum í 5. flokki stúlkna,“ segir í tilkynningunni, sem fulltrúi Orkumótsnefndar og framkvæmdastjóri ÍBV skrifa undir.

Aðstandendur mótsins segja að mótin hafi verið kynjaskipt í samræmi við stefnu KSÍ.

„Ef knattspyrnuhreyfingin telur það íþróttinni og iðkendum til framdráttar að hætta að spila í kynjaskiptum liðum á mótum á borð við Orkumót og TM-mót, þá mun ÍBV íþróttafélag taka fyrirkomulag þessara móta til endurskoðunar,“ segir jafnframt. „Ef ekki munum við [hafa mótin kynjaskipt áfram] í þeirri von að þannig séum við að mæta þörfum bæði drengja og stúlkna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×