Innlent

Yfirlýsing forsætisráðherra: Bréfið var stílað á eiginkonu Sigmundar Davíðs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. vísir/stefán
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að bréf þar sem reynt var að kúga fé út úr honum hafi borist í umslagi merktu eiginkonu hans.

„Í bréfinu var því hótað að birtar yrðu opinberlega upplýsingar sem reynast myndu skaðlegar ef ég greiddi ekki milljónir króna til bréfritara og samverkamanns hans.“

Sigmundur segir af að bréfinu að dæma virðist umræddar upplýsingar byggja á getgátum og sögusögnum.

„Áréttað var í bréfinu að ef ekki yrði gengið að kröfunum, eða ef lögreglu yrði gert viðvart, yrði séð til þess að fjölmiðlar fengju málið til umfjöllunar og sagðist bréfritari geta tryggt að sú umfjöllun yrði öll hin versta.“

Fjölskyldunni brugðið

Ráðherra segist, líkt og Vísir greindi frá fyrr í dag, hafa gert lögreglu viðvart um leið. Segir ráðherra lögreglu hafa leyst málið af mikilli fagmennsku. Þakkar ráðherra lögreglu fyrir vel unnin störf.

„Vegna frétta sem birst hafa um málið í dag með vísan til hótananna er rétt að taka fram að ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt,“ segir Sigmundur Davíð.

Ráðherra segir að fjölskyldu hans sé verulega brugðið vegna atburðanna. Hvetur hann til hófstilltar umræðu um málið og minnir á að grunaðir gerendur eigi ættingja og vini sem liðið geti fyrir umfjöllunina.

„Fjölmiðla bið ég að sýna skilning á því að ég mun ekki veita viðtöl um málið að minnsta kosti á meðan rannsókn þess er ekki að fullu lokið."



Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér að neðan

Vegna tilraunar til að kúga fé af forsætisráðherra vill ráðherrann koma eftirfarandi á framfæri:

„Fyrir fáeinum dögum barst bréf á heimili fjölskyldu minnar, í umslagi merktu eiginkonu minni. Í bréfinu var því hótað að birtar yrðu opinberlega upplýsingar sem reynast myndu skaðlegar ef ég greiddi ekki milljónir króna til bréfritara og samverkamanns hans.

Af bréfinu að dæma virtust umræddar upplýsingar byggja á getgátum og sögusögnum. Áréttað var í bréfinu a ð ef ekki yrði gengið að kröfunum, eða ef lögreglu yrði gert viðvart, yrði séð til þess að fjölmiðlar fengju málið til umfjöllunar og sagðist bréfritari geta tryggt að sú umfjöllun yrði öll hin versta.

Ég gerði lögreglu að sjálfsögðu strax viðvart og leysti hún málið af mikilli fagmennsku. Ég vil færa lögreglunni kærar þakkir fyrir vel unnin störf.

Vegna frétta sem birst hafa um máli ð í dag með vísan til hótananna er rétt að taka fram að ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt.

Fjölskyldu minni er verulega brugðið vegna þessara atburða. Ég vil hvetja til hófstilltrar umræðu um málið og minni á að grunaðir gerendur eiga ættingja og vini sem liðið geta fyrir umfjöllunina.

Fjölmiðla bið ég að sýna skilning á því að ég mun ekki veita viðtöl um málið að minnsta kosti á me ðan rannsókn þess er ekki að fullu lokið.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×