Innlent

Yfirliðið synti yfir Ermarsundið

Samúel Karl Ólason skrifar
Corinna, Helga, Sigrún, Harpa og Sædís í sjónum í Ermarsundi.
Corinna, Helga, Sigrún, Harpa og Sædís í sjónum í Ermarsundi.
Íslenska sundsveitin Yfirliðið, sem skipuð er þeim Helgu Sigurðardóttur, Corinna Hoffmann, Hörpu Hrund Berndsen, Sigrúnu Þuríði Geirsdóttur og Sædísi Rán Sveinsdóttur, synti yfir Ermarsundið, frá Dover í Englandi til Frakklands.

Liðsstjórar voru Hörður Valgarðsson og Jóhannes Jónsson.

Hópurinn lagði af stað síðastliðinn sunnudag klukkan 18:00 og var sundið til styrktar AHC samtökunum á Íslandi. Samkvæmt tilkynningu frá hópnum gekk sundið mjög vel og tók Sigrún Þuríður Geirsdóttir land í Wissant í Frakklandi 13 klukkutímum og 31 mínútu síðar.

Skilyrði til sunds voru ákjósanleg, en hver sundmaður synti klukkustund í einu. Strangar reglur eru varðandi skiptingar, en sundmenn mega ekki snerstast og tryggja verður að næsti sundmaður byrji ávalt fyrir aftan þann sem er að ljúka sundi.

Í tilkynningunni segir að sundið hafi verið merkilegt fyrir margar sakir.

„Þetta var í fyrsta skipti sem fimm manna boðsundssveit frá Íslandi syndir yfir Ermarsundið.  Ein úr sundhópnum, Sigrún Þuríður, var að synda Ermarsundið í annað sinn og tengdadóttir hennar, Sædís Rán, er yngsti Íslendingurinn til að synda boðsund yfir Ermarsundið, en hún er einungis 21 árs gömul.“

„Helga Sigurðardóttir hóf sundið í fallegu veðri þegar lagt var af stað frá Dover. Þremur tímum síðar stað skall á myrkur en það tekur örlítið á að synda lengst úti á hafi í kolniðamyrkri. Stærðarinnar flutninga- og farþegaskip sigldu framhjá, sum hver ansi nálægt.

Eitt stórt uppljómað farþegaskip minnti óneitanlega á Titanic þar sem það sigldi rólega framhjá okkur í náttmyrkrinu.  Á tímabili var synt með höfrungum, en þeir voru mjög forvitnir og voru á tímabili óþægilega nálægt okkur.  Auðvitað var töluvert af marglyttum, maurildum og öðrum lífverum á leið okkar en það var allt saman fljótta að gleymast þegar strendur Frakklands færðust nær.“

Eftir sundið fór hópurinn á The White Horse í Dover, en þar rita sundmenn nöfn sín á veggi staðarins, sem er frá 14. öld.

Sundleið Yfirliðsins yfir Ermasundið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×