Erlent

Yfir þúsund látnir í hitabylgjunni

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hitinn hefur farið nærri fimmtíu stigum.
Hitinn hefur farið nærri fimmtíu stigum. vísir/epa
Yfir þúsund eru látnir í mikilli hitabylgju sem herjað hefur á Indlandi síðan í apríl. Hitinn hefur farið nærri fimmtíu stigum en von er á að hann fari lækkandi á næstu dögum. Þúsundir þjást af ýmsum fylgikvillum hitabylgjunnar.

Ástandið er einna verst í suðurhluta Indlands, Telangana og Andhrah ríki, þar sem hátt í tólf hundruð hafa látist á rúmri viku. Þá eru spítalar yfirfullir af fólki með sólstingi og hitaslög.

Landsmönnum hefur verið ráðlagt að halda sig innandyra og send hafa verið út fræðsluefni, meðal annars í sjónvarpi og útvarpi, um hvernig fólk eigi að bera sig að í hitanum.

Yfirvöld hafa farið á þess leit við hjálparsamtök að þau opni brynningarstöðvar svo vatn sé í boði fyrir alla þá sem þurfa á að halda.

Hitastigið lækkaði lítillega í syðri héruðum landsins í dag og gert er ráð fyrir að það lækki enn frekar í lok vikunnar. Þó er talið að ástandið gæti varað út júní í norðlægari héruðum, en þá er von á árstíðabundnum hitabeltisrigningum í landinu.

Hitabylgjur eru nokkuð algengar á Indlandi en árin 2002 og 2003 létust þúsundir af völdum hitans. Árið 2010 létust nokkuð hundruð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×