Erlent

Yfir 500 karlmenn í DNA-próf vegna nauðgunar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Við inngang skólans í morgun.
Við inngang skólans í morgun. vísir/afp
Lögregla í Frakklandi safnar nú DNA-sýnum úr meira en 500 karlmönnum vegna nauðgunar sem átti sér stað í Fenelon Notre-Dame, kaþólskum einkaskóla í borginni La Rochelle.

Málið hefur vakið mikla fjölmiðlaathygli í Frakklandi en sextán ára stúlku var nauðgað á salerni skólans í september í fyrra. Vonast rannsóknarfólk til þess að finna samsvörun við lífsýni sem tekið var af fötum stúlkunnar.

Tekin verða munnvatnssýni úr 475 nemendum skólans, 31 kennara og 21 öðrum karlmönnum sem voru í skólanum á meðan stúlkunni var nauðgað.

Karlmennirnir verða ekki neyddir til að gefa sýni en í frétt BBC segir að þeir sem neiti verði óhjákvæmilega grunaðir um aðild að málinu.

Sýnin eru tekin í tveimur skólastofum en nemendur skólans eru tæplega 1.300 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×